Íslendingar í gasslysi á Filippseyjum

23.06.2014 - 10:16
Mynd með færslu
Tveir Íslendingar misstu meðvitund vegna gasleka á Filippseyjum á fimmtudaginn. Filippseyskir fjölmiðlar greindu frá því að átta starfsmenn filippseyska orkufyrirtækisins BGI hefðu slasast á Bileran-eyju. Enginn slasaðist alvarlega.

Íslendingarnir tveir voru við störf þar ytra á vegum verkfræðistofunnar Mannvits.

Að sögn Eyjólfs Árna Rafnssonar, framkvæmdastjóra Mannvits, var verið að prófa holuna á hefðbundinn hátt. Gas hafi komið upp á yfirborðið, sem gerist iðulega, en af einhverjum ástæðum hafi starfsmennirnir orðið fyrir súrefnisskorti með þeim afleiðingum að það leið yfir þá einn af öðrum.

Farið var með þá á sjúkrahús þar sem þeir jöfnuðu sig fljótt. Eyjólfur segir að farið verði yfir verklag og öryggisatriði á staðnum því atvik af þessu tagi eigi ekki að koma fyrir.