Íslendingar horfðu langmest allra á Eurovision

24.05.2017 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: Andres Putting  -  Eurovision
Yfir 180 milljónir sjónvarpsáhorfenda í 42 löndum í Evrópu fylgdust með Eurovision söngvakeppninni í ár. Rétt eins og svo oft áður horfðu Íslendingar hlutfallslega mest á keppnina en um 98% sjónvarpsáhorfenda hér á landi horfðu á úrslitakvöld Eurovision. Áhorf í gegnum netið tvöfaldaðist á milli ára.

Samkvæmt mælingum horfðu tæplega 62% Íslendinga á úrslitakvöldið. Í frétt á vefsíðu keppninnar kemur fram Íslendingar hafi horft hlutfallslega mest á Eurovision, eða rúmlega 98%. Það þýðir að rúm 98% þeirra, sem horfðu á annað borð á sjónvarp á meðan úrslitin stóðu yfir, voru að horfa á RÚV. Engin þjóð kemst með tærnar þar sem við Íslendingar höfum hælana í þessum efnum.

Hlutfall sjónvarpsáhorfenda sem horfðu á Eurovision í löndunum 42 var 36,2%, sem er ríflega tvöfalt hærra hlutfall en horfir venjulega á sömu sjónvarpsstöðvar, eða 15,8%. Heildarfjöldi áhorfenda lækkar á milli ára en það skýrist að mestu á því að Eurovision var ekki sýnd í Rússlandi þetta árið, þar sem Rússar drógu sig úr keppninni. Um sex milljónir fylgdust með beinni útsendingu í gegnum Youtube-rás Eurovision, sem eru tvöfalt fleiri en á síðasta ári.

Áhorf hjá sigurþjóðinni Portúgölum mældist hærra en það hefur gert í tæpan áratug. Þar horfðu 32,5% sjónvarpsáhorfenda á Eurovision. Áhorfið í Búlgaríu, sem endaði í öðru sæti, var 39,4% sem er hærra en það hefur mælst síðan árið 2003.