Ísland í bandalagi gegn Íslamska ríkinu

12.02.2016 - 21:03
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ísland er eitt af 66 ríkjum sem eru í fjölþjóðabandalagi gegn Íslamska ríkinu. Framlag Íslands er eingöngu mannúðaraðstoð til Sýrlands í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur fram í svar utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.

Tilefnið var umræða um hvort NATO eigi með formlegum hætti að gerast meðlimur í bandalagi Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu.

„Ísland er eitt af þeim 66 ríkjum sem hafa verið hluti af fjölþjóðabandalaginu gegn Da'esh/ISIL og er framlag Íslands eingöngu mannúðaraðstoð til Sýrlands í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Öll 28 ríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) eru hluti af fjölþjóðabandalaginu, en mörg þeirra taka ekki virkan þátt í aðgerðum með neinum hætti, heldur leggja af mörkum til mannúðaraðstoðar og uppbyggingar stöðugleika í Írak og Sýrlandi með öðrum hætti,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.

Á fundi NATO þann 11.febrúar var þessi möguleiki ræddur, að sambandið gengi með formlegum hætti í bandalagið gegn Íslamska ríkinu en engin ákvörðun hefur verið tekin um það ennþá. Þannig taka öll 28 aðildarríkin þátt í aðgerðum gegn hryðjuverkasamtökunum en ekki Atlantshafsbandalagið formlega sjálft.

Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fagnaði umræðum NATO í vikunni og sagði það styrkja bandalagið gegn Íslamska ríkinu til muna ef samtökin tækju þátt.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV
Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV