Internetið alls staðar og staðsetningarvillur

02.02.2016 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: PCWorld
Eitt "r" olli því að ferðamaður endaði á Laugarvegi á Siglufirði en ekki Laugavegi í Reykjavík eins og til stóð. Misskilningur við notkun á GPS-tækjum er alþekktur eins og Ríkarður Sigmundsson innflytjandi Garmin GPS tækja á Íslandi veit. Hann og Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg ræddu málin í Síðdegisútvarpinu.

Félag kvenna í vísindum verður stofnað á næstu dögum en skortur á stuðnings- og tengslaneti kvenna í vísindum er talinn vera ein af orsökum kynjahalla á þeim vettvangi. Auður Magnúsdóttir, lífefnafræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu er ein þeirra sem stendur að nýja félaginu.

Nettenging hluta eins og bíla, þvottavéla og heilu bygginganna, er nokkuð sem tæknifyrirtæki horfa mjög til. Tölvutækni allstaðar - Internet of things er líka yfirskrift UT-messunnar sem haldin verður síðar í vikunni. En hvað þarf til þegar kemur að uppbyggingu innviða og er tæknin örugg? Síðdegisútvarpið talaði við framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkur, Erling Frey Guðmundsson og Theodór Ragnar Gíslason hjá tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis. 

Ísland tekur nú  í fyrsta sinn þátt í undankeppni HM í bandý-íþróttinni en undanriðillinn sem liðið dróst í fer fram í Nitra í Slóvakíu dagana 3-7. febrúar. Þá kemur í ljós hvort landslið Íslands kemst í lokakeppnina í desember. Atli Þór Hannesson er í landsliðinu og hann var á línunni.

Verslunin Kraum sem hefur verið í hinu sögufræga húsi Aðalstræti 10 er á förum en húsið er það elsta í Reykjavík. Hrafnhildur Halldórsdóttir heimsótti verslunina og forvitnaðist um frekari áform.

Sveinn Guðmarsson fréttamaður fór yfir það sem efst er á baugi í erlendum fréttum - eins og alltaf á þriðjudögum.

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi