„Innrás“ íslenskra presta í norskt biskupsdæmi

08.01.2016 - 09:14
Mynd með færslu
Svona lítur dómkirkjan í Hamarsbiskupsdæmi út að innan - í biskupsdæminu eru starfandi 13 íslenskir prestar.  Mynd: kirkenorge.no  -  Wikimedia
Af þeim 23 íslensku prestum sem eru starfandi í Noregi eru 13 þeirra í Hamars-biskupsdæminu þar sem eru 164 sóknir. „Við höfum góða reynslu af íslenskum prestum og tungumálið hefur aldrei þvælst fyrir,“ segir ráðgjafi hjá biskupnum í Hamar í samtali við NRK. Prestsskortur er í Noregi á meðan prestar á Íslandi eiga erfitt með að fá brauð eftir efnahagshrunið.

Í umfjöllun NRK er rætt við Sigurð Grétar Sigurðsson, sem er nýjasti presturinn í Hamars-biskupsdæmi. Hann flutti til Noregs fyrir tveimur mánuðum og dáist að skírnarfontinum í Vågå-kirkjunni sem er frá 1100.  

NRK segir tölfræðina í Hamars-biskupsdæminu einstaka. Biskupsdæmið er reyndar nokkuð stórt -það nær yfir Hedmark og Uppheima-fylki og þar eru 164 sóknir. Biskupinn heitir Solveig Fiske og ráðgjafi á skrifstofu hennar segir biskupsdæmið hafa góða reynslu af íslenskum prestum. 

Sigurður Grétar viðurkennir í samtali við NRK að hann hafi átt í erfiðleikum með að skilja sóknarbörnin. Það hafi þó ekki verið jafn mikið vandamál og hann óttaðist í fyrstu. „Við lærum dönsku heima og svo hlusta ég mikið á útvarpið og á fólk tala saman og læri mikið af því.“

Hann segir að í Noregi fái prestar þá frídaga sem þeir eigi, þeir vinni sína vinnuviku og vinnutíminn sé betur skipulagður. „Hérna veistu hvenær þú ert búinn í vinnunni. Á Íslandi höfðu margir prestar þá tilfinningu að þeir gerðu aldrei nóg og að það væru alltaf í vinnunni.“

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV