Innanlandsflug komið að þolmörkum

19.06.2017 - 21:49
Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  ruv.is
Samgönguráðherra mun skipa starfshóp sem endurskoðar rekstrarfyrirkomulag flugvalla innanlands á grundvelli nýrrar skýrslu. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að gera stærstu flugvellina fjárhagslega sjálfstæða þannig að notendagjöld flugvallanna endurspegli í auknum mæli raunkostnað við rekstur þeirra. Núverandi kerfi sé komið að þolmörkum.

Í skýrslunni segir að fjárframlög frá ríkinu til styrktar innanlandsflugi eigi með breyttu fyrirkomulagi að renna að mestu til flugrekenda til að mæta auknum kostnaði eða farþega, með niðurgreiðslu á farmiðum, til að koma í veg fyrir að fargjöld hækki vegna hærri flugvallagjalda. Opna ætti möguleika einkaaðila og eða sveitarfélög á að koma að rekstrinum.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra segir að hann vilji skoða þær leiðir sem farnar eru í nágrannalöndunum.

„Eins og í Skotlandi þar sem að fjármagnið sem lagt er í þetta fer þá frekar í að lækka verð til þeirra sem oft þurfa að flúga. Ég vil sjá að innanlandsflugið geti orðið virkari valkostur fyrir íbúa úti á landi sem eiga um langan veg að fara í dag er þetta mjög dýrt eins og við þekkjum.“

Eignarhald hins opinbera á evrópskum flugvöllum hefur snarlækkað síðustu árin. Íslenska ríkið greiðir nú rúma 2 milljarða króna á ári í innanlandsflug en það má þó muna fífil sinn fegri. Áfangastöðum hefur fækkað og nokkrar flugstöðvar eru í lítilli sem engri notkun og hafa ekki verið um áraraðir. Með fjölgun ferðamanna hafa skapast ný tækifæri. Ráðherra mun skipa starfshóp sem mun vinna áfram úr tillögum skýrslunnar

„Ég útiloka ekki að það verði skoðað eitthvert samstarf með rekstur á einhverjum af þessum völlum í framtíðinni og hef sagt að það komi alveg til greina að sveitarfélög eða aðrir aðilar kæmu að rekstri vallanna. Aðalatriðið er að finna leiðir til þess að efla innanlandsflugið og það fjármagn sem í það er lagt á hverju ári. Það eru umtals verðir fjármunir á hverju ári. Það þarf að finna leið til þess að innanlandsflugið verði raunhæfari valkostur í almenningssamgöngum.“

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV