Illa ruddir vegir að helstu ferðamannastöðum

17.02.2016 - 18:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólíklegt er að snjómokstur að helstu náttúruperlum í Þingeyjarsýslu aukist á næstunni. Þarna eru margir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins sem fólk þarf ítrekað að snúa frá vegna ófærðar.

Ferðaþjónustan á Norðausturhorni landsins er orðin langþreytt á slæmu aðgengi að náttúruperlum. Þetta eru meðal annars Dettifoss, Hverir við Námaskarð, Leirhnjúkur, Dimmuborgir og Goðafoss. Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar nær ekki til þessara staða með reglubundnum hætti og færðin þangað er því erfið og oft varla fært nema á vel búnum bílum.

Mál sem búið er að ræða lengi 

Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri í Skútustaðahreppi, segir lengi hafa verið rætt um þetta við Vegagerðina og fleiri stofnanir sem hafi með þessa vegi að gera. „Spjótin hljóta auðvitað að beinast að Vegagerðinni sem hefur umsjón með vegunum. Og jafnvel að landeigendum og einhverju leyti að sveitarfélögunum.“

Bílar að festa sig og fólk að reyna að komast áleiðis

Vegagerðin mokar veginn að Dettifossi, þegar veðuraðstæður leyfa. Og annað slagið að Hverum. Eini reglulegi moksturinn í vetur er að Goðafossi, en það er á vegum Þingeyjarsveitar. Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri þar, segir að nauðsynlegt hafi verið að bregðast við ástandinu. „Hér voru náttúrulega bílar að festa sig og fólk að reyna að komast að fossinum. Við tókum þetta bara með öðrum snjómokstri sem við erum með hérna á svæðinu.“ segir hún.

Þarf aukið fjármagn eigi þjónustan að batna

Skútustaðahreppur hefur mokað í Dimmuborgir fram að áramótum, en Vegagerðin hefur aðeins tvisvar rutt veginn þangað eftir áramót. En Vegagerðin ber við fjárskorti við vetrarþjónustu og segist starfa innan þess ramma sem ráðuneytið setur. Eigi þjónustan að batna, þurfi aukið fjármagn.

Þróunin fylgir ekki mikilli fjölgun ferðamanna

Jón Óskar segir að því miður gangi almennt allt of hægt að koma á skipulagðri vetrarþjónustu við ferðamannastaði. „Það hefur ekki haldið í við þessa gríðarlegu aukningu í ferðaþjónustu yfir vetrarmánuðina. Og það er hlutur sem verður bara að breytast mjög hratt. Það verður að koma á betra skipulegi og skilgreiningu á því hver ber ábyrgð á þessum hlutum,“ segir hann.