ÍBV hafði betur í spennuleik

10.01.2016 - 20:53
Úrslitin réðust á lokasekúndunum þegar ÍBV og Fram mættust í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Þetta var lokaleikur fjórtándu umferðar og með sigri gat ÍBV endurheimt annað sætið og minnkað forskot toppliðs Gróttu aftur niður í eitt stig en Fram var stigi á eftir ÍBV.

Staðan var jöfn í hálfleik 13-13 en í seinni hálfleik náðu Eyjakonur fjögurra marka forystu og þær voru skrefi framar allt þar til fjórar mínútur voru eftir. Þá jafnaði Ragnheiður Júlíusdóttir fyrir Fram í 25-25 og lokasekúndurnar voru æsispennandi. Ragnheiður skoraði 13 mörk í leiknum.

Markahæsti leikmaður ÍBV með 10 mörk, Ester Óskarsdóttir kom ÍBV svo yfir 27-26 þegar 10 sekúndur voru eftir. Fram tók leikhlé og freistaði þess að jafna með 8 sekúndur eftir á klukkunni en það tókst ekki og ÍBV fagnaði dramatískum sigri.

Sjá má svipmyndir úr leiknum og viðtöl við þjálfaranna að leik loknum hér að ofan. Stefán Arnarson, þjálfari Fram, segir meðal annars að Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari ÍBV, sé fallegasti þjálfarinn í deildinni og að það hafi áhrif á dómgæsluna.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður