Íbúar Madaya hafa nærst á grasi og soðnu vatni

15.01.2016 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd: Abeer Pamuk, SOS Barnahjálp
Íbúar Madaya í Sýrlandi hafa nærst á grasi og soðnu vatni en mánuðum saman bárust engin matvæli til bæjarins. Dæmi eru um að foreldrar hafi gefið börnum sínum svefnlyf á kvöldin, þar sem þau gátu ekki sofið fyrir hungri.

Madaya er á valdi sýrlenskra uppreisnarmanna og stjórnarherinn situr um bæinn. Engin matvæli eða hjálpargögn bárust til Madaya í hálft ár og hungursneyð hefur ríkt í bænum. Minnst tuttugu hafa farist úr hungri og talið er að um fjögur hundruð manns þurfi bráðnauðsynlega á læknishjálp að halda. Alþjóðlegar hjálparstofnanir fengu loks leyfi í þessari viku til að fara með hjálpargögn í bæinn. Starfsmenn SOS Barnaþorpa komu til Madaya í gær. Þeir segja ástandið í bænum skelfilegt. Madaya sé eins og draugabær. Fréttastofa náði tali af þeim í dag. „Það er fólk í Madaya en ekkert líf,“ segir Abeer Pamuk, upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna í Sýrlandi. Hún segir að börnin hlaupi ekki um og leiki sér eins og önnur börn sem þau hafa hitt í Sýrlandi. 

„Síðustu mánuðina hefur helsta máltíð fólksins í Madaya verið soðið vatn með kryddum og svo drekkur fólk vatnið. Þetta er alls ekki heilsusamlegt. Fólk hefur líka sagt okkur að það hafi borðað gras og soðið lauf af trjánum,“ segir Abeer.

Yngstu börnin aldrei fengið heila máltíð

Börnin í bænum séu mjög vannærð. Sum þeirra hafi jafnvel aldrei fengið alvöru máltíð. Abeer segir að engin börn eigi skilið að búa við slíkar aðstæður. „Fólk hefur gefið börnunum sínum svefnlyf af því það átti ekkert handa þeim að borða og þau gráta stöðugt, svo þau gefa þeim svefnlyf svo þau geti sofið og gleymt því að þau eru svöng,“ segir Abeer. „Ekkert barn á skilið að búa við þær aðstæður sem börnin í Madaya búa við.“

Vonast er til að hægt sé að flytja verst stöddu börnin í búðir SOS Barnaþorpa í Damaskus.