Hyggst setja lög á verkfall flugmanna

14.05.2014 - 13:56
Mynd með færslu
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum upp úr hádegi að leggja fram lagafrumvarpi á Alþingi til að stöðva verkfallsaðgerðir flugmanna. Óljóst er hvenær frumvarpið verður tekið til afgreiðslu á Alþingi.

Ríkisstjórnin kom saman á fund í stjórnarráðshúsinu klukkan eitt. Fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara eftir að Félag íslenskra atvinnuflugmanna sleit samningaviðræðum við Icelandair. Forsvarsmenn flugmanna sögðust þá allt eins búast við því að lög yrðu sett á verkfallið. Þegar klukkuna vantaði um stundarfjórðung í tvö gekk Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra af fundi og til fundar við forseta til að leggja frumvarpið fyrir hann. Að því loknu verður frumvarpið lagt fyrir Alþingi.

Óvíst er þó hvenær innanríkisráðherra mælir fyrir frumvarpinu og hvenær það verður afgreitt. Eldhúsdagsumræður fara fram á Alþingi í kvöld en næstu aðgerðir flugmanna eru boðaðar á föstudag.

Þetta yrðu önnur lögin sem samþykkt yrðu á verkfallsaðgerðir í vor. 2. apríl síðastliðinn samþykkti Alþingi lög þar sem verkfallsaðgerðum undirmanna á Herjólfi var frestað til 15. september.  

brynjolfur@ruv.is