Hvetur flugmenn til að draga úr kröfum

12.05.2014 - 07:25
Mynd með færslu
Clive Stacey, framkvæmdastjóri bresku ferðaskrifstofunnar Discover the World, hvetur flugmenn Icelandair til að draga úr launakröfum sínum. Hann segir furðulegt að fámennur hópur flugmanna geti haldið íslenskum ferðamannaiðnaði í gíslingu.

Stacey hefur unnið að skipulagningu hópferða frá Bretlandseyjum til Íslands í rúmlega 30 ár. Hann segir ferðamannaiðnaðinn á Íslandi í dag einkennast af fagmennsku og sé á heimsmælikvarða.

Stacey skrifaði Samtökum ferðaþjónustunnar bréf í gær þar sem hann lýsti yfir áhyggjum sínum. Hann ítrekaði þær í samtali við fréttastofu. Hann sagðist eiga erfitt með að skilja hvers vegna flugmenn fari fram á svo miklar launahækkanir. Með kröfum sínum haldi flugmenn ferðamannaiðnaðinum í gíslingu.

Stacey bendir á að Icelandair eigi nóg með að standa í samkeppni við önnur flugfélög og hafi því ekki efni á svo háum launahækkunum. Þeir borgi nú þegar mun betur en samkeppnisaðilar og því ættu flugmenn Icelandair að draga úr kröfum sínum.