Hvatti til skjótra viðbragða

06.12.2010 - 12:37
Mynd með færslu
Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hvatti bandaríska sendiráðið til að bregðast skjótt við ákvörðun Einars Guðfinnssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að heimila hvalveiðar, í janúar í fyrra. Bandaríski sendiherrann lagði til harkaleg viðbrögð.

Í skjölum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík sem Wikileaks hefur undir höndum er meðal annars greint frá því þegar Einar K Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, heimilaði veiðar á hrefnum og landreiðum rétt áður en hann yfirgaf ráðherrastól og minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við. Þetta var í lok janúar í fyrra. Bandarísk stjórnvöld höfðu ítrekað mótmælt veiðum Íslendinga og í frásögn sendiráðsins segir að Einar hafi nokkrar mögulegar ástæður fyrir að heimila veiðarnar. Í fyrsta lagi sé hann einfaldlega á atkvæðaveiðum. Íbúar kjördæmisins muni eftir þessu í næstu kosningum. Í öðru lagi geti Einar mögulega viljað koma með þessu höggi á Alþjóða hvalveiðiráðið og í þriðja lagi geti þetta verið innlegg í orðræðuna um sjálfstæði Íslands og í baráttuna gegn aðild að ESB, þar sem hvalveiðar yrðu ekki liðnar. Fram kemur að starfsmaður sendiráðsins hafi rætt við Árna Finnsson, formann Náttúruverndarsamtaka Íslands, um ákvörðun Einars. Árni hafi lýst þeirri skoðun að alþjóðasamfélagið þyrfti að bregðast fljótt við. Í kjölfarið hafði Carol Van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna, samband við sendiherra Bretlands og Svíþjóðar sem samþykktu að mótmæla harkalega í sameiginlegu bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Van Voorst lagði til að rök sendiherranna yrðu þau að ákvörðun um hvalveiðar væri ekki til þess fallin að bæta illa laskaða ímynd landsins og óskaði eftir leiðbeiningum frá Washington um næstu skref í málinu. Bréf sex erlendra sendiherra var afhent Steingrími J Sigfússyni tveimur vikum síðar.