Hvalabeinum raðað upp á Húsavík

16.01.2016 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Undirbúningur að sýningu beina steypireiðar í Hvalasafninu á Húsavík er langt kominn. Framundan er mikil vinna við að raða beinunum saman. Stefnt er að því að opna safnið að nýju í mars.

 Beinin voru flutt frá Reykjavík til Húsavíkur í tveimur ferðum í september. Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að breytingum á Hvalasafninu, svo hægt sé að sýna beinagrindina. Ekki er hægt að hengja hana upp og því verður hún sýnd eins og hún liggi í fjöru. 

Búið er að leggja drög að uppröðun og nú er framundan heljarinnar verk við uppsetninguna sjálfa, en opna á safnið að nýju í mars. 

„Við þurfum að smíða fætur undir þetta, undir beinin og hryggsúluna svo hún liggi ekki á jörðinni, halda henni frá gólfinu,“ segir Þorvaldur Björnsson, hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Þannig að upplifunin verður svona, sem sagt, þegar þú kíkir yfir beinagrindina að hún sé í fjöru og þú sérð sandfjöruna, hallandi sandfjöruna en þú sérð í megnið af beinunum, það verður svona eitthvað aðeins niðurgrafið miðað við þyngd beinagrindarinnar en hún er nánast öll upp úr.“

Þorvaldur sá sjálfur um að verka hvalinn á strandstað og áttaði sig í fyrstu ekki á stærðinni. „Þetta var bjartsýnismaður, get ég sagt, sem fór af stað og ætlaði að skera hvalinn á einni nóttu eða svo. Það reyndust margir dagar, enda efnið mjög mikið þarna, efniviðurinn.“

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV