Húsleit á skrifstofu framkvæmdastjóra VW

19.03.2017 - 07:19
epa05270508 A Volkswagen logo seen on a car in the lot of a VW dealership in Alexandria, Virginia, USA, 21 April 2016. Media reports on 21 April state Volkswagen is to buy back cars in USA following emissions scandal, as part of an agreement with US
 Mynd: EPA  -  EPA
Húsleit var gerð á skrifstofu framkvæmdastjóra Volkswagen í Þýskalandi vegna rannsóknar á svindli í útblástursmælingum dísilbíla hjá Audi. Frá þessu er greint í þýska dagblaðinu Bild am Sonntag.

Um eitt hundrað löggæslumenn leituðu í höfuðstöðvum Audi í borginni Ingolstadt, og verksmiðju bílaframleiðandans í Neckarsulm í síðustu viku, auk höfuðstöðva Volkswagen, móðurfyrirtækis Audi, í Wolfsburg. Bild am Sonntag segir 47 starfsmenn Volkswagen til rannsóknar, þeirra á meðal Matthias Müller, framkvæmdastjóra, og Rupert Stadler, framkvæmdastjóra Audi. Dagbækur þeirra, minnisblöð og minniskubbar farsíma þeirra eru meðal þess sem saksóknarar vilja komast yfir.

Enginn frá Volkswagen hefur enn fengist til að tjá sig um málið að sögn blaðsins.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV