Hungrað sæljón fannst á veitingastað

06.02.2016 - 05:47
Glorhungraður sæljónskópur fannst inni á veitingahúsi í San Diego borg í Kaliforníuríki Bandaríkjanna í gær. Kópurinn komst inn um bakdyr veitingahússins og fannst sofandi á bás þar.

Kópurinn er átta mánaða gamall, vannærður og uppþornaður. Hann var fangaður og komið fyrir í björgunarmiðstöð SeaWorld vatnagarðsins þar sem hann hlýtur aðhlynningu.

Bernard Guillas, kokkur á veitingahúsinu, segir sæljónið hafa beðið um að fá að sjá matseðilinn. Hann segist hafa spurt á móti hvort kópurinn ætti pantað borð. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC fékk kópurinn vel útilátna máltíð hjá starfsfólki SeaWorld eftir björgunina.

Sérfræðingar segja sæljónum fækka ört. Ástæðan er sú að helstu fæðu þeirra er ekki lengur að finna á heimkynnum þeirra vegna hlýnunar sjávar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV