Hugsanlegt að börn væru undir snjónum

19.03.2017 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: Símon Halldórsson  -  RÚV
Björgunarsveitarmenn voru kallaðir að Fjarðarbyggðarhöllinni í Reyðarfirði laust fyrir klukkan tvö í dag. Mikill snjór rann þá af þaki hallarinnar og var talið hugsanlegt að börn, sem þar voru að leik, hefðu orðið undir snjónum. Björgunarsveitarmenn sem voru við snjóflóðaleitaræfingar í Oddsskarði með snjóflóðaleitarhunda og annan búnað brunuðu í bæinn og fengu leyfi til forgangsaksturs.

Leit í snjónum umhverfis Fjarðarbyggðarhöllina gekk vel og klukkustund eftir að útkallið barst var björgunarsveitarfólk búið að fínkemba svæðið og leita af sér allan grun.
 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV