Huang fær ekki Grímsstaði

Ögmundur Jónasson


  • Prenta
  • Senda frétt

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að ákvörðun sín um að leggjast gegn kaupum kínverska auðkýfingsins á Grímsstöðum á Fjöllum sé í samræmi við íslensk lög og reglur. Umfang kaupanna hefði verið slíkt að þau hefðu gert anda laganna að engu.

Ögmundur sagði eftir ríkisstjórnarfund farið hafi verið vandlega yfir málið í innanríkisráðuneytinu og þar hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að Huang Nubo væri óheimilt að kaupa jörðina. Honum hafi verið tilkynnt um málið en engin viðbrögð fengist.

Orðrétt sagði Ögmundur eftir fundinn: „Það er ekki unnt að verða við þessari beiðni kínverska hlutafélagsins. Þetta er ekki einstaklingur í rauninni sem er að óska eftir landakaupum heldur er þetta hlutafélag sem [Huang Nubo] er einn af helstu eigendunum í. Hlutafélagið uppfyllti ekki þau skilyrði sem eiga að vera fyrir hendi. Þá er einnig á það að líta að meginreglan í lögunum er sú að landakaup þegna utan EES-svæðisins eru ekki heimil en það er engu að síður hægt að veita undanþágu frá þessari meginreglu. Hér er um að ræða landakaup af þeirri stærðargráðu og slíku umfangi að ef heimild hefði verið veitt eða undanþága þá má segja að þessi lög væru farin. Það er ljóst að sá sem sækti um eftir þetta hann myndi hljóta að fá heimild til kaupa einfaldlega vegna þess að fordæmið væri slíkt.“

Aðspurður hvort sátt hefði ríkt um ákvörðunina í ríkisstjórn eða hvort deilt hefði verið á hana á ríkisstjórnarfundi sem lauk skömmu fyrir eitt sagði Ögmundur að þetta væri ákvörðun innanríkisráðherra eins.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku