Hraunstraumur niður Hrunagil

23.03.2010 - 19:54
Mynd með færslu
Hraunið úr eldgosinu við Fimmvörðuháls rennur hægt niður Hrunagil. Flatarmál hraunflákans á Fimmvörðuhálsi mældist tæpur hálfur ferkílómetri í gær og hafði þá fjórfaldast á einum degi. Mælingin er byggð á myndum úr vél Landhelgisgæslunnar og ljósmyndum Jarðvísindastofnunar. Slæmt veður hefur verið á svæðinu í dag og engar nýjar myndir fengist af gosinu.

Hraunstraumurinn liggur niður Hrunagil og fyrir þá sem eru kunnugir gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls þá er sprungan vestan megin við hana. Hraunið sker gönguleiðina á um 300 metra kafla og í gær náði hrauntotan að Heljarkambi.

Jósef Hólmjárn, tæknimaður hjá Veðurstofunni, sem þekkir vel til á þessum slóðum segir að hraunið muni síga fram í þrepum. Vatnið í Hrunagili sem hraunið rennur nú ofan í, hægi á rennslinu. Stíflur myndist í gilinu sem á endanum bresti og þá skríði hraunið áfram. Hann segir hraunrennslið þurfa að haldast óbreytt í margar vikur og jafnvel mánuði eigi það að lokum að ná niður að Krossá.