Hótel á Norðurlandi verr nýtt en búist var við

10.08.2017 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: Ouicoude  -  Wikimedia
Hótelnýtingin þarf að vera gríðarlega góð yfir sumarið til að dekka vetrartímann, segir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Aukið framboð hótelgistingar og breytt ferðamunstur gæti skýrt verri nýtingu á hótelum á Norðurlandi en búist var við.

 

Ferðamenn dreifast meira

Gistinóttum á Norðurlandi fjölgaði í júní miðað við árið í fyrra samkvæmt tölum Hagstofunnar en þrátt fyrir það virðast hótel á Norðurlandi nýtast verr en áður. Arnheiður Jóhannsdóttir, er framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands: „Ferðamenn eru að dreifa sér mun víðar um Norðurland og í aðra og nýrri gistimöguleika því að við höfum verið að sjá fleiri hótel koma inn og stækkun á hótelum en aukið framboð á gistiheimilum líka.“

Lausatraffík ekki í stað afbókana

Í sumar opnaði til dæmis nýtt Fosshótel við Mývatn og á síðasta ári Hótel Laugarbakki og Fosshótel Húsavík var stækkað. Árið 2015 var Hótel Sigló opnarð. Arnheiður segir alls ekki um hrun að ræða þótt hótelin séu verr nýtt en búist var við. Ferðamönnum hafi ekki fjölgað samkvæmt væntingum og þá verði til breytt ferðamunstur með sterkri krónu, fólk stytti ferðir og velji ódýrari gistimöguleika: „Það er meira um afbókanir og  lausatraffíkin er ekki að skila sér jafn mikið - að fylla þau herbergi sem losna.“

Gistináttatölur segja hálfa söguna

Tölur Hagstofunnar segja þó ekki nema hálfa söguna um gistinætur á  því að þær ná einungis til hótela í heilsárstarfssemi og ekki til gistiheimila eða annarra ódýrari gistimöguleika. Arnheiður segir að þegar heildargögn sumarsins liggi fyrir verði hægt að meta stöðuna betur, þótt sum hótel kvarti þá séu önnur mjög ánægð með sumarið.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

 

Þurfa mikla nýtinguna til að dekka veturinn

Arnheiður segir árstíðarsveiflur setja hóteleigendur í erfiða stöðu og bindur vonir við að efla megi vetrarferðamennsku með beinu flugi til Akureyrar yfir vetrartímann og bættum vetrarsamgöngum. Til stendur til að í janúar og febrúar verði flogið beint til Akureyrar frá Bretlandi með 1500 ferðamenn sem væru þá 4500 gistinætur, það gæti komið til móts við nýtingarhlutfallið í sumar. „Það er kannski stóri vandinn að nýtingin þarf að vera gríðarlega góð yfir sumartímann til að dekka þá þennan vetur,“ segir Arnheiður.

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV