Hóstasaft og hægir taktar – hiphopsena Houston

DJ Screw
 · 
Hiphop
 · 
Lestin
 · 
Pistlar
 · 
rapp
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

Hóstasaft og hægir taktar – hiphopsena Houston

DJ Screw
 · 
Hiphop
 · 
Lestin
 · 
Pistlar
 · 
rapp
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
13.09.2017 - 15:09.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
Þórður Ingi Jónsson fjallar um hiphop-senu Houston borgar og hvernig stefna undir miklum áhrifum kódínsblandaðrar hóstasaftar átti eftir að hafa feikileg áhrif á þá rapptónlist sem vinsælust er í dag.

Þórður Ingi Jónsson skrifar: 

Houston, stærsta borg Texas-fylkis hefur lent hroðalega illa í fellibylnum Harvey en margir flúðu þangað á sínum tíma undan fellibylnum Katrína og þurfa því að flýja í annað sinn á stuttum tíma. Ein af þeim ófyrirséðu afleiðingum þessa harmleiks snýr að UGK, goðsagnakenndustu rappsveit allra tíma í Houston. Skjalasafn sveitarinnar fórst í flóðunum samkvæmt ekkju rapparans Pimp C og eiginkonu samstarfsmanns hans, Bun B. Af þessu tilefni og til heiðurs fólksins í Houston verður farið yfir hina mögnuðu rappsenu borgarinnar þegar hún var upp á sitt besta – og um leið minnast guðföður senunnar og mannsins sem kom henni á kortið – DJ Screw.

DJ Screw sem hét réttu nafni Robert Earl Davis er einn áhrifamesti plötusnúður sögunnar og stærsti áhrifavaldurinn á hljóm rappsins eins og það leggur sig í dag. Hann fann upp á sérstakri aðferð við að þeyta skífum sem kallast „chopped ’n’ screwed“. Þetta felst í því að taka lag og hægja all svakalega á því, láta taktinn hökta og skreyta lagið með skífuskanki og alls kyns sækadelískum áhrifum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kevin  -  Flickr
Robert Earl Davis, betur þekktur sem DJ Screw.

Tilraunakennd tónlistin ruglar marga í ríminu þar sem sérstakur hljóðheimurinn er eins súr og edikdropi í vatnsglasi. Í glamúr- og djammheimi Miami-borgar í Florida hafði tíðkast að hraða upp lög en menn dansa ef til vill ekki jafn mikið í Houston, þannig þeir fóru öfuga leið í sinni stefnu.

Afslappaður kokteill á rúntinum

„Chopped ’n’ screwed“ var afslöppuð tónlist til að spila á rúntinum en staðreyndin er sú að stefnan er nátengd notkun á kódínblandaðri hóstasafti, sem menn kalla „purple drank“. Vegna eiturlyfjastríðsins í Bandaríkjunum var erfitt að fá ýmis ólögleg vímuefni í Houston en hægt var að nálgast ódýra hóstasaft löglega í nær öllum verslunum, þannig það varð helsta vímuefni unga fólksins í Houston á tíunda áratugnum. Kódín og prómetasín, virku efnin í saftinni, hafa gríðarlega sljóvgandi áhrif, þannig þessi ofurafslappaða tónlist og þessi letjandi kokteill hélst í hendur. Lyfið er gríðarlega ávanabindandi og óhollt, sérstaklega í bland við önnur efni. Þetta fór með Screw, sem lést árið 2000 aðeins 29 ára að aldri. Stærsta rappstjarna senunnar sem ég minntist á áðan, Pimp C, lést einnig því miður langt fyrir aldur fram árið 2007, 33 ára að aldri. Þetta er harður heimur og lyfin hafa því miður drepið margan manninn.

Ekki liggur fyrir hvernig þessi tónlistarstíll byrjaði. Plötusnúðurinn Daryll Scott sem hafði töluverð áhrif á byrjun stefnunnar lýsir sumarkvöldi þar sem vinahópur hans var úti að þvælast í góðviðrinu að hlusta á mixteip eftir hann úr ferðakassettutæki. Brátt fóru batteríin að klárast sem varð til þess að það hægðist á tónlistinni og þeir sem voru á svæðinu gjörsamlega trylltust yfir nýja hljómnum. Eftir þessa uppljómun hafi þeir farið að eiga við tækið til að það myndi spila kassetturnar hægar. Þetta hafi verið gert með skrúfu eins og nafnið DJ Screw gefur til kynna.

Nýji hljómurinn

Það sem Screw átti hins vegar að hafa sagt við gamla kærustu er að hann hafi leikið sér að því að setja skrúfu á plötuspilarann hjá móður sinni til að eiga við snúningshraðann. Einn helsti munurinn á þeim Screw og Daryl Scott var að Screw hægði á lögunum mun meira. Upp úr byrjun níunda áratugarins fór hann að dreifa kassettum til vina og vandamanna sem varð það til þess að menn úr mismunandi fátækrahverfum komu saman til að taka upp tónlist. Fólk elskaði það sem það heyrði. Screwed Up Click hét hópurinn, fjöldi rappara og listamanna en þessi nýji hljómur varð gríðarlega vinsæll á svæðinu á mjög stuttum tíma.

Hátíðardagurinn 27. júní

Screw tók að selja kassetturnar sjálfur og var röðin af fólki og bílum í götunni hans svo löng að löggan hélt að hann væri að selja eiturlyf. Screw var líkt og eins manns útvarpsstöð - í gegnum hann heyrði fólkið í Houston allt hitt rappið frá Kaliforníu og New York. Sömuleiðis komust rapparar á kortið með því að rappa á kassettunum hans. Auk þess að gera sínar útgáfur af lögum sem höfðu þegar komið út fékk Screw rappara til að taka upp svokölluð „freestyle“ yfir taktana sína þar sem menn spinna textana á staðnum. Þannig bjó hann til rappstjörnur sem voru fljótlega beðnar um að flytja textana sína í klúbbunum og fá slatta borgað fyrir. Hér má hlíða á fræga upptöku, June 27, þar sem menn ortu á staðnum af mikilli snilld. 27. júní er nú eins konar hátíðardagur í Houston vegna þessarar 35 mínútna upptöku.

Áður en Screw vissi af var chopped ’n’ screwed orðin alvöru tónlistarstefna og voru aðrir plötusnúðar á svæðinu farnir að herma eftir honum. Skrúfaðar útgáfur af rappplötum voru gefnar út og kallaðar „screw tapes“, sem hann var ekki harla sáttur með. Hann pirraði sig ekki yfir því að menn væru undir áhrifum frá sér heldur af því að nafn hans var notað. „Screw tape“ væri ekki alvöru nema það væri eftir hann sjálfan. Eftirspurnin var nú orðin svo mikil að klíkan stofnaði plötubúðina Screwed Up Records & Tapes, sem var einnig plötuútgáfa hópsins.

Allt spunnið á staðnum

Íbúar norður- og suðurhluta Houston höfðu lengi átt í erjum en það fallega við hreyfinguna á bak við Screw var að tónlistin náði að sameina stríðandi fylkingar. Ekki var þó alveg allt með felldu, sem kom í ljós þegar helsti rapparinn í klíkunni, Fat Pat, var myrtur stuttu eftir að búðin opnaði. Fyrsta platan hans Ghetto Dreams var gefin út stuttu eftir morðið og fékk hún gríðarlega góðar viðtökur. Fat Pat og fleiri skrifuðu aldrei texta fyrir upptökurnar heldur var allt spunnið á staðnum, rétt eins og margir stærstu rappararnir í dag gera.

Formgerðin var einfaldari en rappið sem var vinsælt á þessum tíma og lögðu menn meiri áherslu á stemninguna og fílinginn frekar en flóknar pælingar og orðafimleika. Screw var mikill dugnaðarforkur en hann vann að list sinni dag og nótt. Velgengnin sem hann upplifði lét hann leggja enn harðar að sér en brátt fór álagið að stíga honum til höfuðs. Ekki hjálpaði lífsstíll hans til en hann byrjaði að fá flogaköst einn daginn. Screw var með veikt hjarta fyrir en stundarglasið rann út árið 2000, þegar hann lést skyndilega úr hjartaáfalli. Þetta var gríðarlegur missir fyrir íbúa Houston en hans var minnst sem hughlýs manns sem vildi gera allt fyrir fólkið í kringum sig.

Hafði áhrif á Moonlight

Ef litið er á rapptónlist nútímans mætti færa rök fyrir því að Screw sé stærsti áhrifavaldurinn á hljóðheiminn. Dýpkaðar raddir, manipúleringar á taktinum og sækadelísk skynbrögð eru allt hlutir sem menn telja sjálfsagða í rappinu í dag en það má allt rekja til hans. Tónlist hans hefur þó ekki bara haft áhrif á hiphop-senuna og má nefna sem dæmi tónlistina fyrir myndina Moonlight, sem kom út í ár og hlaut fjölda Óskarsverðlauna, meðal annars fyrir tónlistina eftir Nicholas Britell. Hann segist hafa verið undir beinum áhrifum frá DJ Screw þegar hann skrifaði tónlistina.

Hér má hlusta á hina einkennandi rödd DJ Screw, löturhæga og drafandi.

Þrátt fyrir þessa miklu arfleifð tók það þó smá tíma fyrir heiminn til að meðtaka þessa undarlegu tónlist en á sínum tíma litu menn í Bandaríkjunum frekar niður á rappið sem kom frá Suðrinu og töldu senuna vera fulla af sveitalúðum. Eins og minnst var á í fyrri grein Lestarinnar um rappsenuna í Memphis tróna Suðurríkin hins vegar nú á toppnum í heimi rapptónlistar. Stíllinn er viðvarandi í dag og eru jafnvel menn frá New Jersey að rappa eins og Suðurríkjamenn, svo ekki sé minnst á mína kynslóð af íslenskum röppurum. Við skulum því hugsa til þess að ákvarðanir Örlaganornanna eru oft undarlegar – og fellibylur getur breytt tónlistarsögunni.

Þórður Ingi Jónsson fjallaði um rappsenu Houston-Borgar í Lestinni í dag.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Migos eru Bítlar Youtube-kynslóðarinnar“

Tónlist

Djöflaskítur í gettóinu