Hornafjörður rís úr sæ vegna jökulbráðnunar

14.03.2016 - 10:18
Hlýnun jarðar hefur mikil áhrif á Höfn í Hornafirði þar sem jökulfarg minnkar og bærinn rís úr sæ. Sveitarfélagið lét meta hve mikið af gróðurhúsaloftegundum losna vegna starfsemi sveitarfélagsins sjálfs og ætlar að minnka losunina um 3% á ári.

Höfn í Hornafirði er í miklu nábýli við Vatnajökul. Bráðnun og hop skriðjöklanna hefur áhrif á umhverfi íbúanna en í sveitarfélaginu Hornafirði búa næstum 2200 manns.

2000 vatnsgámar til sjávar á hverri klukkustund 

Á Náttúrustofu Suðausturlands er grannt fylgst með þróun mála, ekki síst á Breiðamerkurjökli en til eru mælingar á honum frá 1890. „Bráðnunin jafngildir því að við hefðum fjarlægt leysingavatn sem kæmist fyrir í 20 feta gámi og við myndum fjarlægja 2000 slíka gáma á hverri klukkustund í 120 ár. Það er magnið af ís sem hefur horfið af Breiðamerkurjökli einum,“ segir Snævarr Guðmundsson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Suðausturlands.

Jökulbráðnunin sést líka greinilega í Hoffellsjökli. Þorvarður Árnason, náttúrufræðingur á Höfn, hefur tekið ljósmynd af jökulsporðinum á sama stað frá árinu 2008. Á myndunum sjást greinilegar breytingar en sjá má myndaseríuna í sjónvarpsfréttinni sem hægt er að horfa á hér að ofan. 

Land hefur risið um 20 cm síðan 1997

Bráðnunin veldur því að jökulfargið minnkar og þá lyftist landið. Kristín Hermannsdóttir, veðurfræðingur og forstöðumaður náttúrustofunnar segir þetta hafa margvíslegar afleiðingar. „Það er breyting í rennsli jökulánna. Ósinn er líka að breytast frá því sem var fyrir nokkrum áratugum. Sem er aðalinnsiglingin fyrir Hornafjörð. Það breytast eitthvað lagnir hér, skólplagnir og vatnslagnir þegar landið er að rísa,“ segir Kristín.

Landmælingar fylgjast grannt með breytingum á Höfn og mælistöðin þar er hluti af alþjóðlegu mælineti. Hún hefur mælt bæði landrek og landris í 19 ár út frá föstum mælipunktum. „Þessi punktur hann er búinn að vera hér síðan 1997 og nýjustu mælingar sýna að hér hækkar land um 14 millimetra á ári. Á 50 árum erum við að tala um yfir 50 sentimetra,“ segir Kristín.

Óttast ekki að allt skekkist 

Sveitarfélagið þarf að huga að landrisinu í sínum áætlunum en bæjarstjóri Hornafjarðar, Björn Ingi Jónsson, segir að íbúar hafi ekki miklar áhyggjur af landrisinu. „Þetta er ekki þannig að þetta lyftist á einn hátt og þá fari allt að halla heldur er í raun landið að lyftast sem heild. Þetta hefur ekki stór áhrif á byggingar en auðvita þarf að hafa þetta í huga. Land er að rísa hér um rúman sentimetra á ári sem er bara töluvert og menn jafnvel tala um að það gæti aukist frekar en hitt þegar fram í sækir.“

Ætla að minnka losun um 3% á ári

Til að berjast gegn loftslagsáhrifum hefur sveitarfélagið skráð alla losun frá starfsemi sveitarfélagsins sjálfs í samvinnu í Landvernd. Á fimmtudag í síðustu viku skrifaði sveitarfélagið undir samning við Landvernd um að minnka losun um 3% á ári með öllum tiltækum ráðum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að Landvernd sé að fylgja fordæmi dönsku náttúruverndarsamtakanna en þar í landi hafi um 75% sveitarfélaga skrifað undir slíkan samning. Unnið sé að samningum við fleiri sveitarfélög hér á landi og vonandi geti Landvernd orðið sá aðili á Íslandi sem aðstoði sveitarfélög við að ná markmiðum í loftslagsmálum.

Sparakstur getur minnkað losun um 10%

„Meðal aðgerða sem sveitarfélagið hyggst grípa til er að taka upp vistvænni bíla og í framtíðinni vonandi rafmagnsbíla líka. Það má nefna líka meiri aksturssparnað; námskeið í aksturshermum geta dregið allt að 10% úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fara í frekari flokkun á úrgangi og sérstaklega taka lífrænan úrgang frá. Fara í átak gegn matarsóun og svo mætti í raun lengi telja,“ segir Guðmundur.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV