Hörð viðbrögð stjórnarandstæðinga

09.01.2017 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Stjórnarandstæðingar gagnrýna fjármálaráðherra harkalega fyrir að hafa ekki birt skýrslu um aflandsfélög fyrir kosningar. Óskað hefur verið eftir því að umboðsmaður Alþingis kanni hvort ráðherrann hafi með því brotið siðareglur ráðherra. 

Skýrsla um milljarðaeignir Íslendinga í aflandsfélögum var birt fyrir helgi. Hún var unnin fyrir Bjarna Benediktsson, sem fékk hana í hendur nokkrum vikum fyrir kosningar. Hann sætir nú gagnrýni fyrir að skýrslan hafi ekki verið birt fyrr enda hafi hún átt erindi við almenning fyrir kosningar. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur óskað eftir því við umboðsmann Alþingis að kannað verði hvort þetta sé brot á siðareglum ráðherra, sem segja að ráðherra skuli ekki leyna upplýsingum sem varði almannahag. „Það er ekki okkar að meta það hvort þetta hefði breytt einhverju í aðdraganda kosninga, það er almennings að ákveða það. Það er ekki mitt að ákveða það og allra síst Bjarna Benediktssonar að ákveða það hvenær sé tímabært að almenningur fái upplýsingar sem að honum ber. Við biðjum umboðsmann Alþingis að skoða þetta, siðareglurnar eru settar fram af þessum ástæðum, til að verja almenning og til að styrkja stöðu almennings. Hvað út úr þessu kemur verður tíminn að leiða í ljós en reglurnar eru settar fram til að styrkja stöðu almennings gagnvart valdhöfum á hverjum tíma.“

Vilja frekari viðbrögð

Bjarni hefur beðist afsökunar á því að hafa farið rangt með það hvenær hann fékk skýrsluna í hendur. Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanni Pírata, þykir það ekki nóg: „Ég held að minni íslendinga sé ágætt og að þessi viðbrögð og þessi framkoma sé eitthvað sem þurfi að hafa afleiðingar, aðrar en að segjast hafa verið ónákvæmur. Mér finnst þetta ekki viðeigandi viðbrögð hjá ráðherranum.“

Skýrslan mikilvægt innlegg

Óttarr Proppé, sem nú vinnur að myndun ríkisstjórnar með Bjarna Benediktssyni, segir að betra hefði verið ef skýrslan hefði komið fram fyrir kosningar, það hafi verið klúður á birtingu hennar, sem sé ekki gott. Skýrslan sé mikilvægt innlegg í umræðuna: „Við leggjum mikla áherslu, í þessum stjórnarmyndunarviðræðum -öllum, að vanda verklag, auka gegnsæjið og vinna nákvæmlega að svona málum. Vinna gegn skattaundanskotum og þar með talið gegn skattaskjólum þannig að ég held að þetta smellpassi inn í okkar vinnu og hugmyndafræðinu að baki myndunar þessarar ríkisstjórnar.“

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV