Höfða mál vegna Dyflinnarreglugerðarinnar

03.03.2016 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Nokkur prófmál hafa verið höfðuð gegn bresku ríkisstjórninni vegna notkunar á Dyflinnarreglugerðinni til að senda hælisleitendur aftur til landa sem hafa tekið á móti mun fleiri flóttamönnum en Bretar. Breska innanríkisráðuneytið leggur allt kapp á að vinna málin. Lögfræðingar hafa höfðað mál fyrir hönd nokkurra hælisleitenda, meðal annars konu frá Erítreu sem var ítrekað nauðgað á meðan hún neyddist til að sofa á götunni á Ítalíu.

Bresk yfirvöld vilja senda hana aftur til Ítalíu á grundvelli reglugerðarinnar, sem segir að stjórnvöldum Evrópuríkja sé heimilt að senda hælisleitendur aftur til fyrsta lands sem þeir komu til í Evrópu og gera þeim að sækja um hæli þar. Reglugerðin er valkvæð, ekkert skyldar lönd til að senda hælisleitendur til upprunalandsins í Evrópu.

Greg Ó Ceallaigh, einn lögfræðinganna sem hefur höfðað mál gegn innanríkisráðuneytinu, segir ómannúðlegt að beita Dyflinnarreglugerðinni með þessum hætti þar sem lönd á borð við Ítalíu og Grikkland anni engan veginn flóttamannastraumnum og skilji fólk eftir alsnautt á götunni á meðan mál þeirra velkist um í kerfinu. 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV