Hlemmur - Mathöll opnuð á Menningarnótt

Innlent
 · 
Menningarnótt 2017
 · 
Morgunútvarpið
 · 
Menningarefni

Hlemmur - Mathöll opnuð á Menningarnótt

Innlent
 · 
Menningarnótt 2017
 · 
Morgunútvarpið
 · 
Menningarefni
17.08.2017 - 09:26.Ásrún Brynja Ingvarsdóttir.Morgunútvarpið
Hlemmur Mathöll verður opnuð á laugardag og þar gefst fólki kostur á að smakka á mat á sjö af þeim tíu veitingastöðum sem þar verða með aðstöðu. Áshildur Bragadóttir höfuðborgarstjóri greindi frá þessu í Morgunútvarpinu í morgun.

Ragnar Egilsson, markaðsstjóri Hlemms mathallar segir að opnunin á laugardag verði ekki eiginlegt opnunarpartý mathallarinnar. „Það verður gert meira úr opnun síðar.“

Tafir hafa orðið á opnun mathallarinnar sem átti upphaflega að hefja starfsemi í fyrrahaust. Hlemmur var áður skiptistöð fyrir strætisvagnafarþega og gera þurfti umtalsverðar breytingar á húsinu fyrir veitingastarfsemi. Framkvæmdir töfðust fram úr hófi, sagði Bjarki Vigfússon, einn forsvarsmanna mathallarinnar í maí. Ýmsar ástæður voru fyrir töfunum. Erfiðlega gekk að fá tilskilin leyfi og rafmagnsþörf hafði verið vanmetin. 

Áshildur Bragadóttir, segir að mikið af viðburðum verði í og við Hlemm á menningarnótt. Fyrirtækin í kringum Hlemm ætli einnig að taka þátt í hátíðinni og vera með viðburði. „Okkur langar til að vekja athygli á þessu svæði. Það hefur verið gífurleg uppbygging í og við Hlemm og efri hluti Laugavegar er orðinn fjölsóttur og hvert einasta verslunarrými þar er orðið pakkað. Við sáum þarna eftir hrun að það var lítið við að vera á efri hluta Laugavegar en þar er nú er mikil mannmergð og fólk sækir inn á þetta svæði. Ég held að uppbyggingin eigi eftir að halda áfram enn ofar, þess vegna vildum við gera Hlemm að áherslusvæði í ár og mögulega á næsta ári líka.“

Áshildur segir að alls verði um 100 tónlistarviðburðir á menningarnótt á þremur tónleikasvæðum að þessu sinni; Hljómskálagarði, við Arnarhól og nú bætist Ingólfstorg við. Þá taki kirkjurnar í miðborginni einnig þátt í hátíðinni og verði með viðburði.  

 

Tengdar fréttir

Innlent

Sjá fyrir endann á töfum við opnun mathallar

Neytendamál

Tafir á opnun mathallar á Hlemmi

Reykjavíkurborg

Kostar 107 milljónir að gera Hlemm að mathöll

Reykjavíkurborg

Gæti draumur um matarmarkað á Hlemmi ræst?