Hjálpin barst of seint fyrir suma íbúa Madaja

19.01.2016 - 23:03
Mynd með færslu
 Mynd: Abeer Pamuk, SOS Barnahjálp
Fimm manns hafa dáið úr hungri í bænum Madaja í Sýrlandi eftir að hjálparstarfsmenn komu með vistir til bæjarins fyrir viku. Talið er að hundruð þúsunda Sýrlendinga séu í svipaðri stöðu og íbúar Madaja.

Umsátursástand hefur verið í Madaja frá því síðasta sumar og nánast engar vistir eða hjálpargögn borist til bæjarins. 32 hafa soltið til bana í Madaja síðan í desember, þar af minnst sex ungbörn yngri en eins árs að sögn Lækna án landamæra.

Alþjóðlegar hjálparstofnanir fengu leyfi til að fara með vistir þangað í síðustu viku. Þrátt fyrir það létust fimm af völdum vannæringar eftir það.

Komust undan á flótta

Nokkrar stúlkur náðu að flýja frá Madaja í síðustu viku. Ein þeirra er Fatema, ellefu ára. Hún lýsir því hvernig fólk reyndi að komast úr bænum í leit að mat, en hafi farist eða slasast þegar það steig á jarðsprengjur sem eru umhverfis bæinn. „Fólkið var að deyja og aðrir voru að reyna að komast af, og lögðu líf sitt í hættu til að finna mat handa börnunum sínum og þeir komu slasaðir til baka,“ segir Fatema.

Hún segir fólkið í bænum hafa verið örvæntingarfullt og m.a.s. lagt sér ketti til munns. „Fólkið í Madaja borðaði krydd, kattakjöt, rusl, í raun og veru hvað eina sem það gat fundið.“ Eftir því sem leið á umsátrið varð ástandið æ erfiðara. „Börnin voru að deyja úr hungri. Við áttum engan mat og gátum ekki hitað húsin okkar,“ segir Fatema. Hún skildi móður sína og systkini eftir í Madaja og vonar að þau nái að flýja líka. Helst óskar hún þess að umsátrinu um bæinn verði hætt.

Brugðust ekki við

Sameinuðu þjóðirnar hafa sætt gagnrýni fyrir að bregðast seint við hungursneyðinni í Madaja. Þar hafi menn vitað af ástandinu frá því í október í fyrra en ekki greint frá því opinberlega þar til myndir af sveltandi fólki birtust á samfélagsmiðlum nú í byrjun árs.

NBC-fréttastofan hefur greint frá því að fimm bandarískir ríkisborgarar séu innilokaðir í Madaja. Þar af eru þrjú börn. Fólkið hafi leitað til bandarískra yfirvalda eftir aðstoð í október í fyrra. Þeirri beiðni var hafnað.

En vandinn er síður en svo bundinn við Madaja. Talið er að hátt í hálf milljón manna sé innilokuð í fimmtán bæjum víðs vegar í Sýrlandi, sem eru ýmist á valdi uppreisnarmanna, Íslamska ríkisins eða stjórnarhersins.