Hjálpargögn berast íbúum Madaya

14.01.2016 - 21:55
epa05102079 Trucks carrying aid material arrive at the entrance of the besieged town of Madaya, in the countryside of Damascus, Syria, 14 January 2016. Convoys of humanitarian supplies, the second in a week, were on their way to three besieged Syrian
 Mynd: EPA
Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn hafa farið fram á neyðarfund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna umsátursástands sem ríkir víða í Sýrlandi. Önnur sending hjálpargagna barst til bæjarins Madaya í dag.

Madaya er á valdi sýrlenskra uppreisnarmanna og stjórnarherinn hefur setið um bæinn í nokkra mánuði. Af þeim sökum hefur hungursneyð ríkt í bænum sem dregið hefur að minnsta kosti tuttugu til dauða.

Fyrir viku veittu sýrlensk stjórnvöld heimild til flutnings hjálpargagna þangað og fyrsta sending matvæla, lyfja og annarra nauðsynja barst þangað í vikubyrjun. Nú síðdegis kom bílalest Rauða hálfmánans og fleiri samtaka til Madaya með aðra sendingu. Hjálpargögn voru einnig flutt til tveggja bæja nærri Idlib í norðurhluta landsins sem líka eru í herkví.

Ríkin þrjú sem farið hafa fram á fundinn í öryggisráðinu krefjast þess að sýrlenski herinn aflétti umsátrum sínum í landinu og heimili flutning hjálpargagna skilyrðislaust. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 4,5 milljónir Sýrlendinga búi á svæðum sem hjálparstofnanir hafa lítinn aðgang að, þar af eru 400.000 í borgum eða bæjum sem eru í herkví víðs vegar um landið.

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri samtakanna sagði á fréttamannafundi í New York í kvöld að það væri stríðsglæpur að svelta fólk með kerfisbundnum hætti.

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV