„Hermenn Óðins“ mótmæltu flóttafólki

01.02.2016 - 09:39
Mynd með færslu
 Mynd: NRK
Samtök sem kalla sig Hermenn Óðins fóru í mótmælagöngur gegn flóttafólki í fimm bæjum í Finnlandi um helgina. Samtökin fullyrða að íslamskir aðkomumenn valdi óöryggi og auknum glæpum.

Samtökin voru stofnuð fyrir nokkru í bænum Kemi í Norður-Finnlandi, að sögn í því skyni að tryggja íbúa Finnlands gegn hættulegum hælisleitendum. Liðsmenn samtakanna segjast starfa í allt að 20 bæjum í Finnlandi. Þeir fullyrða að hælisleitendur standi að árásum á konur í landinu. 

Um 32 þúsund hælisleitendur komu til Finnlands í fyrra. Stjórnvöld segja að allt að 20 þúsundum þeirra verði vísað úr landi. Liðsmenn Hermanna Óðins klæðast svörtum jökkum, sumir með hyrndan hjálm á baki . Það þykir nokkuð skondið að þessi samtök gegn flóttafólki kenni sig við Óðin sem sjálfur var flóttmaður frá Tyrklandi og flúði þaðan undan hernaði Rómverja, ef marka má formála Snorra Eddu.

Samtökin Hermenn Óðins hafa nú breiðst til Noregs með stuðningshópum á Fésbók með um 1.400 stuðningsmönnum. Einn þeirra  er fyrrverandi forsprakki í hópi fjandsamlegum íslam sem kallar sig Varnarsveitir Noregs.

Trond Hugubakken, talsmaður öryggisdeildar norsku lögreglunnar, segir að lögreglan hafi gott yfirlit yfir hópa hægri öfgamanna í Noregi. Þeir teljist ekki vera ógn við öryggi landsins. Lögreglan hafi  hins vega meiri áhyggjur af fólki sem laðist að slíkum hópum og geti verið hættulegir ofbeldismenn.

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV