Herinn sendur að landamærum Slóveníu

23.02.2016 - 04:12
epa04984129 Some 1,800 migrants that arrived on a train at the Croatia border walk towards a registration center in Brezice, Slovenia, 19 October. Many of the migrants are exhausted, they have been waiting for hours at the closed border in Croatia in the
Flóttamenn við landamæri Króatíu og Slóveníu í október.  Mynd: EPA
Slóvenska þingið samþykkti í gær frumvarp um að senda herinn að landamærunum við Króatíu til aðstoðar lögreglu við landamæragæslu. Fjöldi flóttamanna freistar þess að komast frá Króatíu til Slóveníu því Slóvenar taka þátt í Schengen-samstarfinu.

Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu, segir enga hernaðaraðgerð í aðsigi, heldur sé einungis verið að kalla herinn út til aðstoðar við landamæravörslu. AFP fréttastofan segir frumvarpið gera ráð fyrir þriggja mánaða aðstoð hersins. Hermenn megi hafa flóttamenn í haldi um stund áður en þeir eru sendir til lögreglu. Þá stendur í frumvarpinu að grípa megi til vopna ef neyðarástand skapast sem gæti ógnað öryggi almennings.

Landamæraeftirlit var hert í Slóveníu fyrr í mánuðinum. Eftir að Ungverjar lokuðu landamærum sínum í október hafa flóttamenn farið í gegnum Slóveníu í auknum mæli. Síðan í október hafa yfir 470 þúsund flóttamenn komið til Slóveníu og þaðan til Austurríkis.

Vesna Gyorkos Znidar, innanríkisráðherra, sagði á þingi að stuðningur hersins væru nauðsynlegur til þess að létta til með lögreglu. Þá sé nauðsynlegt fyrir lögregluna að geta tekist á við vandræði sem geta skapast þegar flóttamenn fá ekki að fara til Austurríkis.