Helmingur þjóðarinnar trúir á miðilsgáfur

21.01.2016 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: cc  -  National Archives UK
Meira en helmingur þjóðarinnar trúir því að til sé fólk með skyggni- eða miðilsgáfur. Konur eru í hópi þeirra sem trúa mest á slíka hæfileika ásamt þeim sem eldri eru og íbúum landsbyggðarinnar. Rúmur þriðjungur þjóðarinnar hefur farið á miðilsfund. Píratar og Sjálfstæðismenn hafa mestu efasemdirnar um miðilsgáfur.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. Heildarfjöldi svarenda voru 967 einstaklingar, 18 ára og eldri, sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

Samkvæmt vef Sálarrannsóknarfélagsins eru níu miðlar starfandi hjá félaginu. Þegar orðinu „miðill“ er slegið upp á vef Já eru ellefu slíkir skráðir.  

Talsvert hefur verið fjallað um trúarlíf Íslendinga að undanförnu eftir að könnun Maskínu fyrir Siðmennt varpaði ljósi á að innan við helmingur Íslendinga telji sig vera trúaðan. Könnunin leiddi einnig í ljós að hátt í 20 prósent aðhyllist sköpunarkenninguna.

Þá hefur verið nokkuð fjallað um miðla í fjölmiðlum að undanförnu. Til að mynda vakti deila útvarpsmannsins Frosta Logasonar og miðilsins Önnu Birtu nokkra athygli í nóvember á síðasta ári. Ritstjóri Stundarinnar skrifaði einnig nokkuð ítarlega grein um heimsókn sína til miðils í Breiðholti.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV