„Held að starfsmenn hafi ekki verið í hættu“

18.04.2017 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Víkurfréttir  -  Youtube
Slökkvistarfi í verksmiðju United Silicon í Helguvík er lokið. Neyðarlínunni barst tilkynning um klukkan fjögur í nótt um töluverðan eld í verksmiðjunni og var allt tiltækt slökkvilið hjá Brunavörnum Suðurnesja kallað á vettvang í kjölfarið. Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri, telur að starfsmenn verksmiðjunnar hafi sjálfir gert Neyðarlínunni viðvart um eldinn og að þeir hafi ekki verið í hættu.

Eldurinn kom upp í svokölluðu ofnhúsi verksmiðjunnar, þar sem unnið er á vöktum allan sólarhringinn, og logaði í trégólfum á þremur hæðum hússins. Timbrið er notað til að einangra rafskaut sem leiða rafmagn í ofninn. Gólfin eru því að hluta til úr timbri.

„Það var þó nokkur eldur þegar við komum á staðinn,“ segir Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, í samtali við fréttastofu. „Í upphafi var notað duft til þess að slökkva og síðan var farið yfir í vatn þegar það var búið að rjúfa allan straum og gera þær ráðstafanir sem til þurfti svo hægt væri að nota það.“

Hann telur að starfsmenn verksmiðjunnar hafi sjálfir látið Neyðarlínuna vita af eldinum frekar en brunaviðvörunarkerfi hússins. „Ég held að starfsmenn hafi ekki verið í hættu vegna þessa.“

Jón segir of snemmt að segja til um eldsupptök, lögregla fari með rannsókn málsins. Slökkvistarfi var lokið upp úr klukkan sjö í morgun og var vettvangur þá afhentur lögreglu til rannsóknar. „Þetta er eitthvað tjón, ég veit ekki hversu mikið því það er svolítið erfitt að leggja mat á það á þessari stundu, en auðvitað er þetta alltaf eitthvað tjón,“ segir slökkviliðsstjórinn í samtali vð fréttastofu.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV