Heimild til farar um Ísland opin og óútskýrð

16.02.2016 - 15:30
„Heimild fólks til farar um landið er algjörlega opin og óútskýrð,“ segir Helgi Jóhannesson lögmaður og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands. Hann segir að Alþingi þurfi að útskýra betur hvaða heimildir landeigendur hafa til þess að takmarka eða banna ferðir fólks um landið.

„Þessi réttindi almennings til farar um landið hefur verið hér frá því land byggðist og er meðal annars fjallað um í Grágás og Jónsbók og ég held við viljum áfram hafa það þannig. Það er í raun mikið atriði að þetta verði skýrt,“ segir Helgi sem vísar þar í ný Náttúruverndarlög sem samþykkt voru af Alþingi í lok ársins 2015. Í þeim er ákvæði þar sem segir að för fólks um ræktað land og dvöl sé háð samþykki eiganda þess eða rétthafa. „Landeigendur eiga auðvitað ekki að þurfa að sætta sig við hvað sem er. Við vitum að hér er túrismi í gangi þar sem ferðaþjónustur eru að beita fólki á landi. Og ef þú ert uppi í sveit á þínu landi og það er foss eða gil þar, sem fólk vill sjá, og þú ert ekki sáttur við að fleiri manna rútur komi þar daglega getur það ekki verið þannig að þú getir ekki rönd við reist.“

Í lögunum er einnig ákvæði um skipulagðar hópferðir um eignarlönd, þar sem verður að hafa samráð við eigendur vegna umferðar og dvalar. „Í lögunum er hins vegar ekki skýrt hvað skipulagðar hópferðir eru,“ segir Helgi og bætir við að það gæti þess vegna bæði verið fámennt starfsmannafélag í helgarferð eða stórfelldar og skipulagðar ferðir með mörg hundruð manns. Mergur málsins sé sá að það sé ótækt að það sé matskennt hvar og hverjir megi fara um íslenska náttúru. „Eins og staðan er núna hafa landeigendur völdin og geta bannað för.