Heilsugæslan bjóði upp á miklu meiri þjónustu

29.02.2016 - 21:53
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir meira fé verða veitt inn í heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári og þjónustan sem þar verði í boði verði á breiðari grunni. Þar verði ekki bara læknar og hjúkrunarfræðingar að störfum, heldur sálfræðingar, næringarfræðingar og félagsráðgjafar. Aðgengi eigi að batna og þar með muni draga mjög úr því að fólk leiti beint til sérfræðinga eða á bráðamóttöku spítala. Fjölgun einkarekinna heilsugæslustöðva sé nauðsynleg til að rjúfa stöðnun.

Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 20.000 á síðasta áratug, en heilsugæslukerfið hefur ekki vaxið að sama skapi. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur raunar úr 9% minni fjármunum að spila nú en árið 2008, þrátt fyrir þessa hröðu íbúafjölgun.

„Það var löngu tímabært að fara til þess verks að styrkja heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. [...] Síðan hafa menn mismunandi skoðun á því hvernig rekstarfyrirkomulagið á að vera.“

Þetta segir heilbrigðisráðherra, en nú styttist í að rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva verði boðinn út.

„Greiðslumódelið sem við erum að tala um, það er í rauninni þannig að þetta er fjármögnun eftir sjúklingum, skjólstæðingum heilsugæslustöðvarinnar. [...] Því er deilt út á 213.356 einstaklinga sem búa hér í þessu heilbrigðisumdæmi. 90% af fjármögnuninni er fast og þar ráða tveir stærstu liðirnir, kyn og aldur og sjúkdómabyrði. Mest fyrir yngsta hópinn, svo léttir á því, svo kemur ákveðinn þungi í miðjunni og svo þyngist það eftir því sem skjólstæðingarnir eru eldri og með meiri sjúkdómabyrði. 10% af fjármögnuninni fer eftir gæðum og þeim kröfum sem byggðar eru upp í lýsingu á því starfi sem við viljum að fari fram á heilsugæslustöð og hefur aldrei verið sett niður með þessum hætti. Það er að segja kröfulýsingu um það, hvernig við viljum að heilsugæslan vinni hérna. Og þá gildir það sama, burtséð frá því hvert rekstrarformið er.“

Óttast ekki eftirlitsleysi

Kristján Þór tekur undir þá gagnrýni landlæknis að brotalöm hafa verið á eftirliti með sérgreinalæknasamningum, en Birgir Jakobsson sagði í viðtali við Vísi í fyrravor að Sjúkratryggingar þurfi að setja kröfur og upplýsingaskyldan að vera skýr.

 

„Í dag gera þær samninga við þá sem framleiða heilbrigðisþjónustu en spyrja ekki nóg um gæði, öryggi og aðgengi. Þarna fara peningar nánast í einhverja hít sem við vitum ekki hverju er að skila.“

 

Heilbrigðisráðherra óttast ekki að hið sama verði uppi á teningnum með rekstur heilsugæslustöðva, reynslan hafi sýnt það. Þjónustan verði einnig breikkuð, stefnt sé að því á heilsugæslustöðvum verði ekki bara læknar og hjúkrunarfræðingar að störfum, heldur sálfræðingar, næringarfræðingar og félagsráðgjafar. Þetta muni að sama skapi að gilda um allar heilsugæslustöðvar, kröfulýsingin verði hin sama, óháð rekstrarformi. 

Mótmæla auknum einkarekstri

BSRB hefur mótmælt þessum áformum kröftuglega og vísað þar meðal annars í rannsókn prófessors Rúnars Vilhjálmssonar sem Félagsvísindastofnun gerði í fyrra. Þar kom fram að rúm 80% svarenda telja að hið opinbera eigi fyrst og fremst að koma að rekstri heilsugæslustöðva á meðan aðeins 1% taldi slíkum rekstri best komið fyrir hjá einkaaðilum. Kristján Þór segir heilsugæslulækna hins vegar lengi hafa kallað eftir auknum möguleikum til sveigjanleika í starfi og það megi ekki bíða lengur með að rjúfa þá stöðnun sem ríki í kerfinu. Vera megi að harkaleg viðbrögð við þessu rekstrarformi kalli á frekari umræðu, en hann telur málið í góðum farvegi.

Kostnaðurinn ekki tekinn af öðru

Kristján Þór fullyrðir einnig að sá aukni kostnaður sem þetta hafi í för með sér verði ekki tekinn annars staðar úr heilbrigðiskerfinu, gert sé ráð fyrir auknum framlögum til heilsugæslunnar árið 2017 og komist stöðvarnar þrjár í gagnið á þessu ári, verði þær fjármagnaðar sérstaklega, en taki ekki fé af þeim sem fyrir eru í rekstri. Gangi þetta eftir verður fjórðungur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu í einkarekstri, 5 af 20.