Heiðarleiki tennisleikara vekur heimsathygli

07.01.2016 - 18:02
DCIM\100GOPROÁhorfendur á tennisvelli.
 Mynd: Stocksnap.io
Ótrúlegt atvik átti sér stað á alþjóðlegu tennismóti á dögunum þegar bandaríski tenniskappinn Jack Sock hjálpaði andstæðingi sínum að vinna stig með háttvísina að leiðarljósi.

Sock, sem er 23 ára gamall Bandaríkjamaður, mætti Ástralanum Lleyton Hewitt í Hopman Cup mótinu í Ástralíu á þriðjudag. Hewitt átti uppgjöf sem dómarinn dæmdi að hefði farið út fyrir vallarmörk.

„Boltinn var inni ef þú vilt mótmæla dómnum,“ sagði Sock við andstæðing sinn við mikla furðu dómarans en kæti áhorfenda. Hver leikmaður getur látið kanna þrisvar með endursýningu hvort um réttan dóm sé að ræða og ákvað Hewitt að treysta andstæðingi sínum.

Það reyndist góð ákvörðun því endursýning sýndi að boltinn var inni. Áhorfendur fögnuðu vel og lengi enda ekki algengt að atvinnumennir sýni af sér víðlíka háttvísi í keppnisíþróttum. Sock hefur fengið mikið lof fyrir framkomu sína. Hann tapaði hins vegar leiknum 2-0 eftir að hafa verið í lykilstöðu í fyrra settinu þegar atvikið átti sér stað.

Sock vann hins vegar hug og hjörtu íþróttaáhugamanna um allan heim. Atvikið má sjá hér að neðan.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður