Hefur gefið um 90 lítra af blóði - Myndskeið

20.03.2017 - 12:28
„Kunningi minn vestur á fjörðum gerir alltaf grín og segir að það geti ekki verið að það komi svona mikið blóð úr svona litlum manni,“ grínaðist Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum, þegar hann var lagstur á bekkinn í Blóðbankunum til að gefa blóð í tvö hundraðasta sinn í morgun.

 Afrekið er ekki lítið því Blóðbankanum reiknast svo til að blóðgjöf Ólafs telji alls um 90 lítra og hafi gagnast milli tvö og þrjú hundruð manns. 

Ólafi Helga var veitt viðurkenning fyrir afrekið að lokinni blóðgjöf í Blóðbankanum í morgun. Þangað hefur hann komið reglulega frá því síðsumars árið 1972 þegar hann var enn í menntaskóla. Í tilkynningu frá Blóðbankanum kemur fram að Ólafur Helgi hafi um tíma verið blóðflögugjafi og komið þá reglulega í blóðskiljuvél. Þá hafi hann þau 18 ár sem hann var búsettur á Ísafirði skipulagt bæjarferðir sínar til Reykjavíkur þannig að hann gæti gefið blóð á um það bil þriggja mánaða fresti. 

Árið 2002 var Ólafur Helgi kosinn í stjórn Blóðgjafafélags Íslands og tveimur árum síðar sem formaður og gegndi því hlutverki í 10 ár, til ársins 2014. Blóðbankinn hrósar Ólafi fyrir að virkja fólk til blóðgjafa á meðan hann var búsettur á Selfossi. Oft hafi met verið slegin við blóðsöfnun þar. Suðurnesin hafi síðan eflst sem blóðsöfnunarstaður eftir að Ólafur Helgi fluttist þangað. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV