Hefja wasabi-ræktun með uppbyggingarstyrk

04.02.2016 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Miklar líkur eru á að wasabirækt hefjist á Fljótsdalshéraði í vor. Tilraunaverkefni Wasabi Iceland fékk 2,2 milljón króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands í gær og hefjast tilraunir með vefjaræktun á japönsku kryddjurtinni í hátæknigróðurhúsi Gróðrastöðvarinnar Barra bráðlega. Búið er að ganga frá samningum um aðstöðu fyrir ræktunina og mun fjármögnun hennar vera á lokastigi. Forsvarsmenn verkefnisins vildu ekki tjá sig vegna vinnslu frétta en fréttatilkynningar er að vænta í næstu viku.

Góðar aðstæður á Héraði

Ragnar Atli Tómasson og Johan Sindri Hansen stofnuðu fyrirtækið Wasabi Iceland á síðasta ári. Stefnt er að því að rækta wasabi-jurtina í jarðvegslausum vatnsræktarkerfum en rótarfestan verður íslenskur eldfjallavikur. Að sögn Skúla Björnssonar, framkvæmdastjóra Barra, eru aðstæður og búnaður hjá Barra mjög fullkominn til að stýra aðstæðum. Hita- og birtustýringarkerfi henti vel. Tilraunir við vefjaræktunina hefjast bráðlega en í gær voru samningar undirritaðir um aðstöðu til hennar. Styrkur Uppbyggingarsjóðs er ætlaður til þess að þróa aðferðir til þess að vefjarækta wasabi-plöntuna til magnræktunar sem er nauðsynleg í því ferli sem nú fer í hönd.  

Sérstæð afurð og aðstæður

Wasabís er helst neytt með hráum fiski eða svonefndu sushi og þykir best framreitt ferskt, niðurrifið úr stöngli plöntunnar sem hefur afskaplega beiskt bragð. Fáir ræktendur uppfylla ströng ræktunarskilyrði og eini evrópski ræktandinn í dag ræktar utandyra og getur því ekki afhent allt árið. Líkur eru á að fyrirtækið verði eini ræktandinn í Evrópu sem geti afhent ferska plöntu allt árið um kring og þykir fjárfestum einnig kostur að Ísland sé vel staðsett til að flytja ferska vöru til Evrópu og Bandaríkjanna. Rafmagnskostnaður sé lágur og lítið af uppleystum efnum til staðar í vatninu. Aðstaða í gróðurhúsum Barra tryggi að umhverfisaðstæður plöntunnar verða ávalt í samræmi við þarfir hennar og þannig eru stöðug gæði uppskerunnar tryggð.

Alvöru wasabí mun verðmætara en græn kremblanda

Á heimsvísu er gífurleg neysla á svokölluðu wasabíi, grænni kremblöndu sem þykir óaðskiljanlegur hluti sushi-rétta ásamt súrsuðum engifer. Sú kremblanda er oftast unninni úr dufti. Duftið er í 95% tilfella blanda af piparrót, sinnepi og grænum matarlit. Markaður fyrir alvöru wasabí er helst á veitingastöðum en stöngull jurtarinnar er rifinn niður jafnóðum og hins japanska lostætis er neytt. Áætlanir Wasabi Iceland gera ráð fyrir að hefja ræktun á um 500 fermetra svæði með vorinu. Ár taki að rækta plöntuna svo fyrstu afurðir gætu komið á markað vorið 2017.

 

 

 

Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV