Haukar lentu í vandræðum gegn botnliðinu

11.02.2016 - 22:02
Topplið Hauka í Olís-deild karla þurfti svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum gegn botnliði Víkings þegar liðin mættust í Víkinni í kvöld. Lokatölur urðu 26-30 fyrir Hauka sem styrkja stöðu sína á toppnum. Fjórir leikir fóru fram í deildinni í kvöld.

Jóhann Reynir Gunnlaugsson skoraði átta mörk fyrir Víking sem sýndi góða takta í kvöld. Adam Haukur Baumruk var hins vegar með níu mörk fyrir Íslandsmeistaralið Hauka sem er á toppi deildarinnar með 34 stig en Víkingur með 6 stig.

Grótta vann góðan útisigur gegn Val að Hlíðarenda í kvöld, 23-24, í miklum spennuleik. Sterk vörn Seltirninga skóp sigurinn og skoraði Aron Dagur Pálsson sex mörk fyrir Gróttu. Geir Guðmundsson skoraði átta mörk fyrir Val, þar af sjö í fyrri hálfleik.

Á Akureyri náðu heimamenn að snúa við slæmu gengi og höfðu betur gegn ÍR, 22-21, í hörkuleik. Leikurinn var jafn og spennandi en staðan var jöfn í hálfleik, 9-9. Góður sprettur heimamanna undir lok leiks gerði hins vegar gæfumuninn. 

Kristján Orri Jóhannsson skoraði sex mörk fyrir Akureyri en Davíð Georgsson fimm fyrir ÍR. Akureyri er með 19 stig í 7. sæti Olís-deildarinnar en ÍR með 12 stig í 9. sæti.

Úrslit kvöldsins í Olís-deild karla:
Víkingur 26 - 30 Haukar
Valur 23 - 24 Grótta
Akureyri 22 - 21 ÍR
ÍBV 20 - 19 FH 

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður