Hátt í 20% aðhyllast sköpunarkenninguna

13.01.2016 - 20:49
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Hátt í fimmtungur Íslendinga telur að Guð hafi skapað heiminn, samkvæmt nýrri könnun. Aðeins 62% telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, sem er hin viðtekna vísindakenning um tilurð alheimsins. Mjög mikill munur er á afstöðunni eftir aldri. Fjórðungur í aldurshópnum 55 ára og eldri aðhyllist sköpunarkenninguna, en 0,0% þeirra sem eru yngri en 25 ára.

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi fékk Maskínu til að kanna afstöðu fólks til ýmissa lífsskoðana og trúarlegra málefna. Innan við helmingur landsmanna telur sig vera trúaðan, samkvæmt könnuninni.

62% trúa kenningunni um Miklahvell

Þátttakendur voru meðal annars spurðir hvernig þeir héldu að heimurinn hefði orðið til. Tæplega 62% telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, tæplega 18% telja að Guð hafi skapað heiminn, rúmlega 8% segjast ekki vita það eða hafa ekki skoðun og rúmlega 12% telja að heimurinn hafi orðið til á annan hátt. Ekki er marktækur munur á svörum kynjanna.

Afar mikill munur er aftur á móti eftir aldurshópum. Á meðal þeirra sem eru yngri en 25 ára segjast tæplega 94% telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, en 0,0% telja að Guð hafi skapað heiminn. Í aldurshópnum 55 ára og eldri telur hins vegar innan við helmingur að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, eða rúmlega 46%. Tæplega 25% í elsta aldurshópnum aðhyllast sköpunarkenninguna.

Mikill munur eftir búsetu

Flestir telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, tæplega 69%. Í Reykjavík nefna rúmlega 67% Miklahvell, tæplega 59% á Vesturlandi og Vestfjörðum og rúmlega 56% á Austurlandi. Á Norðurlandi og Suðurlandi og Suðurnesjum telur hins vegar innan við helmingur íbúa að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, tæplega 48% á Norðurlandi og tæplega 47% á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Einnig er munur á afstöðu fólks eftir menntun. 68% þeirra sem hafa háskólapróf telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, rúmlega 66% þeirra sem hafa framhaldsskólapróf eða iðnmenntun, en rúmlega 44% þeirra sem hafa grunnskólapróf. Rúmlega 11% þeirra sem hafa háskólapróf aðhyllast sköpunarkenninguna, tæplega 17% þeirra sem hafa framhaldsskólapróf eða iðnmenntun, og tæplega 34% þeirra sem hafa grunnskólapróf.

Hátt í 40% framsóknarmanna hneigjast að sköpunarkenningunni

Margfaldur munur er á afstöðunni til uppruna heimsins út frá stjórnmálaskoðunum. Rúmlega 78% stuðningsmanna Samfylkingarinnar telja að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, tæplega 78% fylgismanna Vinstri grænna, rúmlega 75% þeirra sem styðja Pírata, rúmlega 57% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og 52% þeirra sem styðja Bjarta framtíð. Meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins telur aftur á móti vel innan við helmingur svarenda að heimurinn hafi orðið til í Miklahvelli, rúmlega 38%.

Fæstir stuðningsmenn Vinstri grænna telja að Guð hafi skapað heiminn, tæplega 6%, rúmlega 6% hjá þeim sem styðja Samfylkinguna og rúmlega 7% hjá fylgismönnum Pírata. Rúmlega 22% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar aðhyllast sköpunarkenninguna og tæplega 31% þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn. Mest er trúin á sköpunarkenninguna hjá stuðningsmönnum Framsóknarflokksins, rúmlega 37%.