Háskólagráðan ofmetin

25.01.2016 - 08:04
Mörg íslensk fyrirtæki setja menntunarkröfur fyrir störf þar sem það er óþarfi, þetta segir Svali H. Björgvinsson, framkvæmdastjóri starsfmannasviðs Icelandair. Stórfyrirtæki á borð við PricewaterhouseCoopers, Penguin og Ernst&Young hafa fellt niður skilyrði um háskólagráðu við ráðningar. Svali segir að reynsla sé vanmetin.

Rætt var við Svala í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Háskólagráður hafa gengisfallið að því marki að núna er krafa um masterspróf alls staðar,“ segir Svali og bendir á að áður þótti nóg að hafa BA- eða BS-gráðu eða stúdentspróf. Fyrirtæki, þar á meðal Icelandair, vilji núna fjölbreytni. „Þú vilt ekki að allir komi nákvæmlega eins inn. Ég held að mörg íslensk fyrirtæki, og maður sér það ef maður les atvinnuauglýsingar, hafa yfirskotið menntun, eru að biðja um menntun í störf þar sem raunverulega þarf ekki jafnmikla menntun og um er beðið. Við erum að sjá núna bara hjá okkur, og ábyggilega svipað hjá fjölmörgum fyrirtækjum, ef þú auglýsir eftir starfi þar sem þarf ekki háskólapróf, það eru hundruð manna með háskólapróf sem sækja um. Það er þekkt eins og flugfreyjustarf þar sem þarf ekki háskólapróf að það eru fleiri hundruð, þúsundir manna með háskólapróf sem sækja um slíkt starf. Ég held að reynsla sé vanmetið fyrirbæri klárlega. Það er spurning hins vegar í svona ráðningaferli hvernig þú getur metið þessa þætti. Erlendis er meira um próf heldur en hérna. Fólk fer bara í greindarpróf ef því er að skipta,“ segir Svali.

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi