Háskóla Íslands vantar einn og hálfan milljarð

22.08.2017 - 11:29
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Þriðjungur deilda Háskóla Íslands er í verulegum rekstrarvandræðum. Þetta segir rektor skólans. Hann segir að skólann vanti einn og hálfan milljarð króna.

Ársfundur Háskóla Íslands var haldinn í morgun, nú þegar nýtt skólaár er að hefjast. Jón Atli Benediktsson rektor kom víða við í ræðu sinni, en var tíðrætt um fjárhagsstöðu skólans.

„Hún lítur ekkert sérstaklega vel út vegna þess að við erum alltaf að vinna með skort. Og það þýðir að við eigum erfiðara með að þróa starfið. Við erum ábyrg ríkisstofnun og höldum okkur innan fjárheimilda. En við þyrftum einn og hálfan milljarð í innspýtingu, bara til þess að geta náð því að bæta starfið og halda áfram að eflast,“ segir Jón Atli.

En tekjur skólans hafa aukist statt og stöðugt undanfarin ár ekki satt?

„Jú og ég þakka það stuðningi ríkisvaldsins. Það skipti verulegu máli til dæmis í síðustu fjárlagavinnu að fá inn aukna fjármuni. Við höfum líka verið að koma vel út úr rannsóknarssjóðum, bæði innlendum og erlendum. Og þetta skiptir allt máli. En við þurfum að fá stuðning vegna þess að þriðjungur deilda háskólans er í verulegum rekstrarvandræðum. Við getum sagt að annar þriðjungur er í umtalsverðum rekstrarvandræðum. Og svo er þriðjungur sem er kannski allt í lagi. En við erum alltaf að vinna með skort og þess vegna þurfum við að fá öflugri innspýtingu inn í háskólakerfið, íslensku samfélagi til heilla.“