Harpa nánast uppbókuð út árið 2015

Innlent
 · 
Höfuðborgarsvæðið
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu

Harpa nánast uppbókuð út árið 2015

Innlent
 · 
Höfuðborgarsvæðið
 · 
Menningarefni
„Suma daga koma jafnmargir að skoða Hörpu og fara að Gullfossi og Geysi,“ segir Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu. Hann segir að hátt í 6.000 ferðamenn komi í Hörpu á dag í júní og júlí.

Fjórðungur gesta í fyrra kom í Hörpu gagngert til að sækja tónleika. Um það bil 480 tónleikar hafi verið haldnir í Hörpu í fyrra og þá séu ekki taldir með ókeypis tónleikar í opnum rýmum hússins. „Það er hér um bil einn og hálfur á dag,“ bendir Halldór á. Rætt var við hann í Morgunútgáfunni í morgun. 

Fimmtán alþjóðlegar ráðstefnur voru haldnar í Hörpu í fyrra og tekjurnar jukust um 27 prósent, segir Halldór. Stórar ráðstefnur séu bókaðar langt fram í tímann og síðasta stóra ráðstefnan sem bókuð var í Hörpu er bókuð fyrir árið 2020.

Halldór leggur áherslu á að sýna verði húsinu ákveðna þolinmæði. „Þeir sem bóka ráðstefnur eru íhaldsömustu og varfærnustu menn sem um getur. Menn fara varlega í að bóka sig inn í hús sem ekki er búið að opna því menn eru kannski að bóka fjögur fimm ár fram í tímann, eða sex ár í þessu tilviki.“ 

Nú fyrst sé til dæmis hægt að halda stórar norrænar ráðstefnur hér, því ekki hafi verið til aðstaða fyrir þær fyrr en Harpa var reist. „Þó er það þannig að við erum langt að uppbókuð fram að áramótunum 2015 til 2016 í Eldborg.“ Fyrri hluta vikunnar noti sinfónían salinn til æfinga, en helgarnar, frá fimmtudegi til sunnudags séu hér um bil allir fullbókaðir. „Ef þú vildir halda tónleika þar, þá gæti ég sennilega boðið þér eitthvað næsta sumar og að öðru leyti þá værum við kannski frekar að horfa til 2016.“ 

Halldór segir fasteignagjöldin stærstu hindrunina gegn því að reksturinn nái jafnvægi. „Fjórar af hverjum tíu krónum sem við fáum inn, tæpur milljaðru króna, fer í fasteignagjöld.“  Deilt er um þau fyrir dómi.