Harpa fær 150 milljónir aukalega

28.11.2012 - 12:17
Mynd með færslu
Eigendur Hörpu, ríkið og Reykjavíkurborg, þurfa að leggja 150 milljónir króna aukalega í rekstur hússins á næsta ári.

Ríkið og Reykjavíkurborg eiga og reka tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, ríkið á 54% en borgin 46%. Eigendurnir leggja rúman milljarð til hússins á ári í rekstur og afborganir af lánum.

Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir ríflega 564 milljónum til hússins og í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir 484 milljónum. En það dugar ekki til og vegna taps af rekstrinum þurfa eigendurnir að leggja meira til hússins á næsta ári en gert var ráð fyrir, jafnvel þó ákvörðun um að ljúka við byggingu hússins á sínum tíma hafi byggst á þeirri forsendu að ekki þyrfti að veita auknum framlögum til þess umfram það sem upphaflega var samið um. Samkvæmt heimildum fréttastofu þurfa eigendurnir að leggja Hörpu til um 150 milljónir aukalega, þar af greiðir ríkið um 70 milljónir.

Búist er við að heimild til að leggja Hörpu til aukið rekstrarfé verði bætt við fjárlagafrumvarpið fyrir þriðju umræðu um það, en eigendurnir, ríkið og borg, eru að skoða málið, hvort í sínum ranni. Jafnframt er til skoðunar að styðja við leigutaka hússins, Sinfóníuhljómsveit Íslands og íslensku óperuna, með viðbótarframlagi en húsaleigan er þungur baggi í rekstri beggja. Vonir standa til að ekki verði um frekari aukaframlög að ræða, heldur standi rekstur Hörpu undir sér framvegis.