Harpa er martröð skattgreiðenda

04.08.2012 - 17:28
Mynd með færslu
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að hallarekstur tónlistarhússinn Hörpu komi ekki á óvart. Húsið sé eitt af fjölmörgum dæmum um drauma sem menn fá ríkið til að borga og breytast svo í martraðir skattgreiðenda.

„Þetta erum við að sjá aftur og aftur. Við vorum að samþykkja Vaðlaheiðargöngin og ég geri ráð fyrir að það sama gerist þar að þar breytast draumar einhverra í martraðir annarra. Mér finnst mjög alvarlegt hvað menn ganga léttúðlega um með skuldbindingar skattgreiðenda,“ segir Pétur Blöndal í samtali við fréttastofu.

Pétur segir að ríkið hefði átt að stöðva framkvæmdir við húsið í hruninu: „Það var bara sjálfsagt að stoppa þetta. Það að klára húsið kostaði heilmikinn gjaldeyri. Menn áttu bara að slá þessu á frest og láta þetta standa sem minnisvarða um vitleysislegar fjárfestingar.“