Harðir bardagar í Damaskus

19.03.2017 - 13:21
*** Local Caption *** 53114356
 Mynd: EPA
Harðir bardagar eru í Damaskus, höfuðborg Sýrlands eftir að sveitir uppreisnarmanna og herskárra íslamista réðust í dag á búðir stjórnarhersins í borginni. Tvær bílsprengjur voru sprengdar og nokkrar sjálfsvígsárásir gerðar, að sögn Sýrlensku mannréttindavaktarinnar, sem fylgist með ástandinu í Sýrlandi frá degi til dags. Upplýsingar um mannfall liggja ekki fyrir.

Bardagar hófust í hverfinu Jobar, þar sem barist hefur verið um yfirráðin síðastliðin tvö ár. Þeir breiddust síðan út til annarra hverfa borgarinnar. Að sögn sýrlenska sjónvarpsins beitir stjórnarherinn stórskotaliði gegn uppreisnarmönnum. Borgarbúar eru hvattir til að halda sig innandyra meðan á hernaðaraðgerðunum stendur. Nokkrir skólar í Damaskus hafa tilkynnt að kennsla falli niður á morgun vegna ástandsins.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV