Handþvottur besta vörnin gegn skæðri magapest

06.01.2016 - 07:39
Bráðsmitandi magapest gengur nú manna á milli sem leggst verst á eldra fólk. Gunnar Jóhannsson læknir segir að handþvottur sé besta vörnin því sýklalyf gagnist ekkert gegn veirusýkingunni.

„Þessi sýking, eins leiðinleg og hún er, þá myndar ónæmiskerfið okkar mjög lélegar varnir gegn henni þannig að maður getur endursýkst mjög fljótt þó svo maður sé nýbúinn að berjast við hana. Handþvottur er númer eitt, tvö og þrjú og að drekka vel. Þetta fer fljótt að ganga yfir,“ sagði Gunnar í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Á meðan fólk er með einkenni eigi það að halda sig frá hjúkrunarheimilum. „Eða hitta eldri borgara sem gætu lagst verr í þetta.“ 

Þá þurfi þeir sem vinna í matvælaiðnaði eða á heilbrigðisstofnunum að varast að snúa aftur til starfa of snemma. „Þeir eiga ekki að mæta í svona tvo daga eftir veikindin til að vera alveg lausir við alla smithættu.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi