Handtakan um borð í Polar Nanoq var flóknust

Það flóknasta í rannsókn morðins á Birnu Brjánsdóttur var að handtaka grænlensku skipverjana tvo um borð í togaranum Polar Nanoq í efnahagslögsögu annars lands. Þetta kom fram í máli Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjónsins sem stýrði rannsókninni, í Kastljósi í kvöld þar sem hann fór yfir málið.

Ákæra á hendur öðrum skipverjanum, Thomasi Møller Olsen, var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á mánudag. Þar neitaði hann því að hafa banað Birnu. Hinn skipverjinn sem sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins er farinn aftur til Grænlands og er laus allra mála – hann er ekki talinn hafa átt þátt í morðinu.

Í máli Gríms kom fram að lögregla hafi haft áhyggjur af því að skipverjarnir fengju spurnir af því að til stæði að handtaka þá um borð í togaranum og að það gæti valdið spjöllum á rannsókninni. Svo virtist hins vegar sem það hefði ekki gerst.

Grímur sagði jafnframt að lögregla vissi ekki enn á hvaða leið Birna var þegar hún gekk upp Laugaveginn nóttina sem hún var myrt. Ekkert í þeim gögnum sem lögregla skoðaði við rannsóknina hafi getað skýrt það hvert för hennar hafi verið heitið. Þá segir hann að ekkert bendi til þess að Birna hafi verið þvinguð upp í rauða Kia Rio-bílinn, sem síðan ók með hana suður í Hafnarfjörð, þar sem talið er að Olsen hafi banað henni.

„Þetta mál heltók þjóðina“

Grímur sagði að upptökur úr öryggismyndavélum, bæði vélum í eigu hins opinbera og eins einkaaðila, hafi hjálpað gríðarlega við að leysa málið. Hann vildi þó ekki lýsa því yfir að hann teldi að rétt væri að fjölga þeim. Þótt þær gætu verið til hagsbóta við rannsóknir sakamála þá gætu þær líka verið inngrip í einkalíf fólks. „Ég held að það sé rétt að fara bil beggja í þessu,“ sagði hann.

Grímur lítur svo á að rannsóknin hafi gengið mjög vel. Henni hafi lokið á átta vikum og það hafi ekki síst verið samstilltu átaki að þakka. Meira og minna allt embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi verið undirlagt af málinu í heila viku, og hann nefndi sérstaklega aðstoð sem embættið naut af hálfu Landhelgisgæslunnar, björgunarsveita, annarra lögregluembætta og almennings.

„Þetta mál heltók þjóðina. Það voru allir að fylgast með og það vildu allir hjálpa til,“ sagði Grímur. 

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.