Hamlet er „popúlíska svarið við Trump“

17.02.2017 - 19:02
Þorleifur Örn Arnarson leikstjóri frumsýnir Hamlet annað kvöld í Hannover í Þýskalandi. Það er búið að nútímavæða þetta mikla leikverk eftir Shakespeare, „djamma það upp“ og færa spurninguna endalausu: að vera eða ekki vera, inn í nútímann, eins og Þorleifur segir.

Þorleifur segir að Hamlet væri hið popúlíska svar við Donald Trump, ef hann væri á meðal okkar í dag. „Hamlet beitir sömu aðferðum. Hamlet stígur út úr hinu pólitíska kerfi, horfir út í sal og talar um sársauka sinn og spyr spurninga. Hann fær okkur á sitt band gegn valdakerfinu, sem er nákvæmlega sama og Trump er að gera. Munurinn er bara sá að Hamlet er ekki proto-fasisti.“

Eftir tvær vikur hefst Þorleifur handa við að koma nýju verki á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu. Sýningin heitir Álfahöllin og átti upprunalega að fjalla um Adolf Hitler, en Þorleifur hafði ekki lyst á því eftir að Donald Trump var kosinn Bandaríkjaforseti.

„Morguninn eftir ákvað ég að snúa frá því að búa til pólitískt verk um hvíta miðaldra karlmenn sem vilja stjórna heiminum og hugsaði: nei nú þurfum við að skoða listina.“

Þorleifur segir að nú sé nauðsynlegt að spyrja grundvallarspurninga. „Til hvers er speglun? Til hvers er sjálfskoðun? Að standa og öskra meira er ekki svarið við þessu. Sjálfskoðun, rannsókn, list, fegurð og samvera er svarið við Donald Trump, ekki reiði og hatur hinum megin líka.“