Hallgrímur látinn fara - Kolbrún tekur við

30.12.2014 - 16:25
Mynd með færslu
Hallgrími Thorsteinssyni var í dag sagt upp störfum sem ritstjóra DV. Þremur blaðamönnum hefur einnig verið sagt upp störfum. Samkvæmt heimildum fréttastofu verður Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður af Morgunblaðinu, annar af ritstjórum blaðsins og tekur við því starfi á mánudag.

Ekki liggur fyrir hver hinn ritstjórinn verður.

Vefpressan, sem á og rekur nokkra vefmiðla, keypti nýverið meirihlutann í útgáfufélaginu DV eftir talsverð átök um eignarhald blaðsins. Hvorki Steinn Kári Ragnarsson, framkvæmdastjóri DV, né Hallgrímur Thorsteinsson, hafa svarað síma í dag. 

Þremur blaðamönnum  DV var einnig sagt upp störfum í dag. Þær uppsagnir voru sagðar liður í skipulagsbreytingum og hagræðingu í rekstri. DV er annað fjölmiðlafyrirtækið sem grípur til uppsagna í desember en 365 sagði í gær upp átta starfsmönnum.