Hálendi Íslands og plánetan Mars

27.02.2016 - 09:58
Landslag á Mars
 Mynd: ruv
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Hálendi Íslands nýtist vísindamönnum frá NASA við rannsóknir á reikistjörnunni Mars. Mikilvægt er að halda því ósnortnu segir einn af sérfræðingum geimvísindastofnunarinnar.

Miðhálendið og stofnun þjóðgarðs á hálendinu var til umfjöllunar á ráðstefnu sem haldin var á vegum Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landverndar og Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar í Hörpu. Þar talaði dr. Christopher Hamilton bandarískur eldfjallafræðingur en hann er sérfróður um eldvirkni á reikistjörnum sólkerfisins. Hann vinnur fyrir HiRise teymi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sem rannsakar gögn um líf á Mars.  Margt er líkt með jarðmyndunum á plánetunni og á hálendi Íslands.     
 
Dr. Christopher Hamilton, er líka prófessor við háskólann í Arizona. Hann segir að ákveðin náttúrufyrirbæri sem eru áberandi á Íslandi, til dæmis eldvirkni og jöklar, mjög sterkur vindur og annað, séu eins og fyrirbæri sem finnast á Mars. 

„Mars er í raun mjög lík jörðinni."

Hamilton segir að hálendi Íslands sé ómetanlegt og mikilvægt að náttúra þess sé ósnortin

„Þegar við erum með vísindalegt kerfi eða annað kerfi og bætum einhverju við það breytum við því. Ef við leggjum veg eða byggjum stíflu breytir það umhverfinu og kerfinu sjálfu." 

Hamilton og þrjátíu félagar hans frá NASA voru við rannsóknir á hálendinu síðastliðið sumar. Hann segir að eldgosið í Holuhrauni hafi gefið þeim nýtt sjónarhorn.

„Mikilvægi þess að halda hálendinu ósnortnu eykst þegar óvænt eldgos verður í ósnortnu umhverfi. Þetta gefur okkur tækifæri til að rannsaka gamalt landslag og þær breytingar sem verða." 

„Ef við ætlum að nota Ísland sem hliðstæðu við Mars er mikilvægt að halda vissum hlutum hálendisins óspilltum og leyfa vindinum óáreittum að færa sig yfir náttúruleg landsvæði, það segir okkur mikið um loftaflsfræðilega eiginleika, bæði á jörðu niðri og til dæmis á Mars þar sem ekkert er annað en náttúran."

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV