Háhýsin í Reykjavík hættuleg

03.11.2012 - 10:06
Upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, segir að oft geti myndast snarpar og hættulegar vindhviður í kringum háhýsi á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi fólks þurfti að leita á slysavarðsstofu eftir að hafa fokið til í óveðrinu í gær.

Ástandið í óveðrinu í gær var sérstaklega slæmt í kringum háhýsin við Höfðatorg þar sem vegfarendur áttu í miklum erfiðleikum með að fóta sig í óveðrinu.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar, segir háhýsin oft geta verið hættuleg svæði í slikum veðrum, þar geti myndast sterkar vindhviður og hættulegar. Hún segir að þetta sé eitthvað sem verði að skoða í nánustu framtíð og mögulega verði að taka slík óveður með inn í myndina þegar kemur að því að veita byggingarleyfi fyrir slíkum húsum.

Talsvert af lausamunum fuku í óveðrinu og Ólöf segir að alltaf verði einhverjir sem séu kærulausir. Hins vegar hafi það sett strik í reikninginn þegar vindáttin snérist í gærkvöldi því þá voru hlutir, sem fólk hafði samviskusamlega komið í skjól, í hættu.