Hafi ekki vitað af milljarðagreiðslum

17.02.2016 - 07:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, segir að starfsmenn Borgunar hafi selt hlut sinn í fyrirtækinu á allt of lágu verði í fyrrasumar. Kaupverðið staðfesti að þeir hafi ekki vitað að von væri á milljarða Visa-greiðslum.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Stjórnendur og starfsmenn Borgunar seldu 3,85 prósenta hlut í Borgun til Eignarhaldsfélagsins Borgunar í júlí í fyrra. Söluverðið miðaðist við að heildarvirði Borgunar væri ellefu milljarðar króna. Söluverð Landsbankans á 31,2 prósenta hlut í Borgun átta mánuðum áður miðaðist við að Borgun væri metin á sjö milljarða. Virði félagsins hafi því aukist um 57 prósent á átta mánuðum.

Haukur segir í viðtali í Fréttablaðinu að þetta hafi verið það vitlausasta sem stjórnendur og starfsmenn Borgunar hafi gert, eftir á að hyggja. Rúmum tveimur mánuðum eftir söluna á hlut starfsmanna og stjórnar Borgunar gekk í gegn tilkynnti Visa Inc að það hygðist nýta sér valrétt til að kaupa Visa Europe. Borgun á von á tæplega fimm milljarða króna peningagreiðslu vegna þessa, segir í Fréttablaðinu. 

Stjórn Borgunar hefur synjað ítrekuðum beiðnum fréttastofu um viðtal vegna málsins á undanförnum vikum, samkvæmt ráðleggingum almannatengslaráðgjafa.